Rugl að enginn hafi viljað mig

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP/Oli Scarff

Cristiano Ronaldo kveðst hafa hafnað risatilboði frá sádi-arabíska liðinu Al-Hilal í sumar og er ósáttur við fréttaflutning þess efnis að ekkert lið hafi viljað fá hann til liðs við sig.

Tilboð Al-Hilal hljóðaði upp á 305 milljónir punda í laun á stuttum samningstíma, sem hefði gert Ronaldo að langlaunahæsta leikmanni heims.

„Það er satt. En það sem fjölmiðlar halda áfram að segja, ruglið að enginn hafi viljað mig, er alfarið rangt,“ sagði Ronaldo í viðtali við enska fjölmiðlamanninn Piers Morgan.

Hann sagði það hafa verið erfitt að hafna svo góðu tilboði.

„Það er erfitt. En á sama hátt leið mér sem ég væri mjög ánægður hér [hjá Manchester United], að ég væri enn fær um að skora mörg mörk.

Ég var ánægður hér satt að segja, ég var spenntur fyrir því að eiga gott tímabil hér. En þeir [fjölmiðlar] halda áfram og endurtaka að enginn vilji Cristiano.

Hvernig ættu lið ekki að vilja leikmann sem skoraði 32 mörk á síðasta ári og er landsliðsmaður?“ velti Ronaldo fyrir sér.

mbl.is