Vill binda enda á martröð sína í Bítlaborginni

Jean-Philippe Gbamin á æfingu hjá Everton.
Jean-Philippe Gbamin á æfingu hjá Everton. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jean-Philippe Gbamin, sem er á mála hjá Everton, vill ólmur binda enda á martraðardvöl sína hjá félaginu í Bítlaborginni Liverpool.

Gbamin, sem er landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar, var keyptur til Everton frá Mainz á 25 milljónir punda sumarið 2019 en hefur einungis spilað átta leiki í öllum keppnum fyrir enska liðið á þeim tíma og verið lánaður til CSKA Moskvu í Rússlandi og Trabzonspor í Tyrklandi.

Þrálát meiðsli hafa þá sett stórt strik í reikninginn en umboðsmaður hans, Bernard Collignon, segir í samtali við BBC Sport að Gbamin vilji binda enda á „martröð“ sína hjá Everton og að hann vilji ekki snúa aftur til félagsins.

„Við þurfum að finna annað verkefni fyrir hann. Ég er sá sem kaus Everton því það hefði getað verið milliskref til þess að komast annað.

Það var áhugi frá Arsenal, Tottenham og meira að segja Jürgen Klopp vildi kaupa hann til Liverpool sex mánuðum fyrr en nú vill Jean-Philippe snúa aftur til Þýskalands,“ sagði umboðsmaðurinn.

Gbamin er 25 ára gamall varnartengiliður og á eitt ár eftir af samningi sínum við Everton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert