Tottenham íhugar að selja Harry Kane

Á leið til Real Madríd?
Á leið til Real Madríd? AFP/Oli Scarff

Í kjölfar þess að franski sóknarmaðurinn Karim Benzema ákvað að segja skilið við spænska knattspyrnufélagið Real Madríd eftir þrettán ára dvöl er enski sóknarmaðurinn Harry Kane, leikmaður Tottenham, nú efstur á óskalista spænska stórveldisins.

Dharmesh Sheth, íþróttafréttamaður hjá Sky Sports, segir Tottenham íhuga að selja Kane.

„Þetta gæti tengst því sem er í gangi hjá Real Madríd, þar sem Karim Benzema hefur tilkynnt að hann sé á förum.

Eftir að hafa rætt við ýmsa heimildarmenn á Spáni er komið í ljós að Harry Kane er efstur á óskalista Real, sem lítur á hann sem fullkominn arftaka Benzema,“ sagði Sheth í útsendingu á Sky Sports.

„Þeir líta á hann sem hinn fullkomna arftaka en við þurfum að skoða tvö sjónarhorn í þessu. Í fyrsta lagi sjónarhorn Tottenham. Kane á eitt ár eftir af samningi sínum. Vilja þeir halda honum?

Það er 100 prósent og þeir munu reyna að sannfæra hann um að skrifa undir nýjan samning. Ef hann gerir það ekki gefst besta mögulega tækifærið til þess að græða á því að selja hann. Við erum að tala um 100 milljónir punda.

Það er alveg ljóst að Tottenham vill ekki selja hann til annars úrvalsdeildarfélags þannig að Real Madríd gæti verið besti kosturinn komi til versta kostsins, að hann fari.

Við þurfum líka að horfa á þetta frá sjónarmiði Harry Kane. Hann hefur það gott á Englandi og í Lundúnum. Hann er með unga fjölskyldu og það verður að spyrja spurningarinnar: „Hversu mikilvægt er það fyrir hann að slá markamet ensku úrvalsdeildarinnar?“

Hann er sem stendur með 213 mörk, 47 mörkum á eftir Alan Shearer. Ef hann heldur kyrru fyrir á Englandi eru allar líkur á því að hann slái þetta met,“ bætti Sheth við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert