Enski dómarinn með parkinsonssjúkdóminn

Phil Dowd gefur Chelsea-manninum Branislav Ivanovic rautt spjald fyrir tæpum …
Phil Dowd gefur Chelsea-manninum Branislav Ivanovic rautt spjald fyrir tæpum áratug. AFP/Paul Ellis

Phil Dowd, fyrrverandi knattspyrnudómari í ensku úrvalsdeildinni, hefur greint frá því að hann glími við parkinsonssjúkdóminn.

Dowd var atvinnudómari um tveggja áratuga skeið, frá 1997 til 2016, og þar af dæmdi hann 15 ár í úrvalsdeildinni.

Englendingurinn, sem er 61 árs, greinir frá því í samtali við Mirror að hann hafi greinst með sjúkdóminn á meðan kórónuveirufaraldrinum stóð fyrir nokkrum árum.

Mikið áfall að greinast

Eiginkona Dowds var farin að taka eftir því að handleggur hans hristist óvenju mikið sem leiddi til þess að Dowd ákvað að athuga hvað amaði að.

„Sérfræðilæknirinn sagði við mig: „Þú ert með parkinssonssjúkdóminn.“ Það var mikið áfall og ég hugsaði bara: „Andskotinn.“

Fyrstu tvö árin eftir greininguna vildi ég ekki viðurkenna að ég væri með sjúkdóminn. Þegar maður greinist áttar maður sig ekki á öllum einkennunum og heldur bara að maður hristist aðeins,“ sagði Dowd við Mirror.

Hélt mig í miðjuhringnum

„En það er fjöldi annarra einkenna. Svefnleysi veldur mér miklum vandræðum. Stundum finnst mér erfitt að stíga upp úr stólnum.

Það hægist á öllu. Ég grínast alltaf með það að ég hafi alltaf haldið mig einungis í miðjuhringnum síðasta árið mitt sem dómari!“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert