Liverpool endurheimti toppsætið

Darwin Núnez, Alexis Mac Allister og Luis Díaz fagna glæsimarki …
Darwin Núnez, Alexis Mac Allister og Luis Díaz fagna glæsimarki Mac Allister í kvöld. AFP/Paul Ellis

Liverpool vann í kvöld 3:1-sigur á botnliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla og endurheimti þannig toppsæti deildarinnar af Arsenal.

Darwin Núnez, Alexis Mac Allister og varamaðurinn Cody Gakpo skoruðu mörk Liverpool auk þess sem Conor Bradley, varnarmaður liðsins, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Það voru reyndar gestirnir frá Sheffield sem fengu fyrsta færi leiksins en strax eftir 34 sekúndur fékk James McAtee dauðafæri en þá var hann einn á auðum sjó á fjærstöng inni á vítateig Liverpool en Caoimhin Kelleher varði vel frá honum.

McAtee tók svo horn í kjölfarið og hitti á hausinn á Auston Trusty en skalli hans fór framhjá. Það gerðist satt að segja ekki mikið sóknarlega hjá Sheffield United eftir þetta í fyrri hálfleik.

Liverpool tók öll völd á vellinum en náði þó ekki að skapa sér alvöru marktækifæri þrátt fyrir þessa yfirburði á vellinum. Mohamed Salah átti reyndar fínt skot á 6. mínútu leiksins en Joe Gomez átti þá sendingu fyrir sem Grbic í marki Sheffield United náði að kýla frá en boltinn fór beint á Salah en Grbic varði skot Salah yfir markið.

Liverpool náði loksins að skora á 17. mínútu leiksins en það verður skrifast alfarið á Ivo Grbic, markmann Sheffield United. Varnarmaður Sheffield United sendi til baka á Grbic og hann hafði nægan tíma til að koma boltanum frá en hann tók sér alltof langan tíma í þetta verkefni og Darwin Nunez pressaði hann vel og fékk hreinlega boltann í sig og þaðan fór boltinn í netið.

Skipulag Sheffield United breyttist ekkert þrátt fyrir þetta mark en þeir bökkuðu vel og voru að verjast virkilega vel. Leikmenn Liverpool voru helst í því að skjóta á markið fyrir utan teig en Alexis Mac Allister komst næst því að skora úr slíku langskoti á 34. mínútu en skot hans fór rétt framhjá. Dominik Szoboszlai átti reyndar einnig góða tilraun á 43. mínútu en Grbic varði vel frá honum.

Luis Díaz og Jayden Bogle eigast við í kvöld.
Luis Díaz og Jayden Bogle eigast við í kvöld. AFP/Paul Ellis

Í seinni hálfleik héldu heimamenn áfram að sækja en áfram gekk þeim illa að komast í alvöru færi. Á 58. mínútu leiksins sló þögn á stuðningsmenn Liverpool á Anfield en þá náðu gestirnir að jafna metin.

McAtee átti þá góða sending fyrir frá hægri kantinum og hitti beint á hausinn á Gustavo Hamer sem skallaði boltann í Conor Bradley og þaðan fór boltinn í gegnum klofið á Kelleher og í netið. Það verður að segjast að þetta hafi svo sannarlega komið á óvart en leikmenn Sheffield United sýndu þó mun meiri sóknartilburði í seinni hálfleik en í þeim fyrri.

Eftir þetta jöfnunarmark Sheffield United gerði Jurgen Klopp breytingar á sínu liði og meðal annars kom Andy Robertson inn á og sá átti heldur betur eftir að breyta gangi leiksins.

Á 74. mínútu leiksins átti afmælisbarn dagsins, Harvey Elliott, flotta sendingu á fjærstöngina og þar kom Andy Robertson á ferðinni og tók viðstöðulaust skot sem fór rétt framhjá.

Þremur mínútum síðar átti Robertson góða sendingu fyrir en sendingin fór af varnarmanni Sheffield United í Luis Diaz og þaðan rann boltinn til Alexis Mac Allister sem lét vaða á markið og sá hitti boltann.

Boltinn söng í netinu og Liverpool aftur komið yfir. Áfram hélt Liverpool að sækja og á 90. mínútu náði Cody Gakpo að gulltryggja sigurinn og toppsætið hjá Liverpool en þá skallaði hann boltann í netið eftir frábæra sendingu frá Robertson.

Þessi sigur þýðir að Liverpool endurheimtir toppsætið í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool er með 70 stig eftir 30 leiki, Arsenal er í öðru sætinu með 68 stig og Manchester City er í þriðja sæti deildarinnar með 67 stig. Öll liðin eiga aðeins átta leiki eftir í deildinni.

Liverpool 3:1 Sheffield United opna loka
90. mín. +1 - Það verða að minnsta kosti sjö mínútur í uppbótartíma á Anfield í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert