Stjóri Úlfanna kærður

Gary O'Neil botnaði hvorki upp né niður í ákvörðun dómara …
Gary O'Neil botnaði hvorki upp né niður í ákvörðun dómara um síðustu helgi. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Gary O’Neil, knattspyrnustjóra Wolverhampton Wanderers, fyrir að hafa sýnt af sér „óviðeigandi og/eða ógnandi hegðun“ eftir tap liðsins fyrir West Ham United, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Í tilkynningu frá knattspyrnusambandinu segir að meint óviðeigandi orðbragð sem O‘Neil hafi viðhaft lúti að hegðun í grennd við búningsklefa dómara leiksins.

Úlfarnir virtust vera að jafna metin í 2:2 á níundu mínútu uppbótartíma þegar VAR-dómari leiksins benti dómaranum á að skoða mögulega rangstöðu.

Versta ákvörðun sem ég hef séð

Þótti þeim sem Tawanda Chirewa hafi byrgt Lukasz Fabianski sýn þegar Max Kilman jafnaði metin með skalla.

O‘Neil var ekki beint sammála þeirra ákvörðun dómaranna, trúði ekki eigin augum og sagði á fréttamannafundi eftir leik að „líklega var þetta versta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni séð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert