„Hreyfing og næring skipta mestu máli þegar kemur að undirbúningi fyrir rafíþróttaspilun“

Rakel Ása „Raxi“ Ingólfsdóttir.
Rakel Ása „Raxi“ Ingólfsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Rakel Ása Ingólfsdóttir er 20 ára rafíþróttaleikmaður sem spilar undir rafheitinu „Raxi“. Hún spilar leikina Counter-Strike: Global Offensive og Valorant, en hún tók nýverið þátt í FRÍS og Valorant móti.

Vill keppa eins mikið og boðið er upp á

Fyrsti rafíþróttaviðburður sem Rakel tók þátt í voru Framhaldsskólaleikar Rafíþróttasamtaka Íslands sem haldnir voru fyrr á þessu ári, og var henni í kjölfarið sýndur áhugi af rafíþróttaliðum sem hún er enn að íhuga. Á FRÍS keppti hún fyrir hönd Menntaskólans í Hamrahlíð og eignaðist marga vini í kjölfarið.

Hún tók einnig þátt í Opna Valorant mótinu (endurnefnt Almenni Bikarinn í Valorant) sem lauk nú á dögunum. „Planið er að halda áfram að keppa eins mikið og boðið er uppá,“ segir Rakel og tekur fram að hún hafi ekki skrifað undir samning við neitt félag. Þessa dagana er hún að taka þátt í The Machines Arena alpha-prófunum og tók þátt í móti á þeirra vegum í síðustu viku.

Nýbyrjuð að spila og lenti í öðru sæti á FRÍS

Vinir Rakelar drógu hana með sér í CS:GO í fyrra og féll hún fyrir leiknum, og í kjölfarið ákvað hún ásamt vinkonu sinni að skrá sig í lið MH í leiknum í FRÍS þrátt fyrir að þær væru báðar tiltölulega nýbyrjaðar að spila leikinn. Þær stóðu sig báðar með prýði og lenti lið skólans í öðru sæti í keppninni. „Ég viðurkenni að athyglin sem ég fékk í kjölfar FRÍS var frekar yfirþyrmandi en vinir mínir og fjölskylda hjálpuðu mikið,“ segir Rakel.

Frændi kveikti áhugann

Fyrsti leikurinn sem Rakel man eftir að hafa spilað var WII Sports. „Það sem kom mér verulega af stað í tölvuleikjaheiminum var að stóri frændi minn dró mig með sér í Minecraft,“ segir Rakel og hafi áhugi hennar á öllu tölvuleikjatengdu kviknað í kjölfarið. Sami frændi Rakelar er hennar helsti stuðningsaðili í rafíþróttum í dag. 

Hreyfing og næring skipta máli í undirbúningi

„Markmiðið er að reyna ná allavega fimm leikjum í Valorant á viku en ég hef ekki verið dugleg að sinna CS:GO,“ segir Rakel og bætir því við að hún ætti að vera einblína á CS:GO vegna þess að rafíþróttalið hafa sýnt henni áhuga tengdum CS:GO, þrátt fyrir að Valorant sé líklegast hennar uppáhalds leikur. Rakel segir hreyfingu og næringu skipta mestu máli þegar kemur að undirbúningi fyrir rafíþróttaspilun, en hún reynir að hreyfa sig úti á hverjum degi og passar að næra sig vel. 

Rakel segir að henni hefði aldrei grunað að rafíþróttir ættu eftir að verða eins stórar og þær eru, og bendir á að þær stækki með hverjum deginum sem líður. Rakel byggði sína eigin tölvu í fyrra með aðstoð vinar síns. Hún segist hafa allann þann búnað sem þarf til að streyma frá leikjum sínum, og sé komin með Twitch rás, en sé þó ekki farin að streyma alveg strax.

Föður Rakelar að þakka að hún hafi orku og rétt hugarfar

Helstu fyrirmyndir hennar í rafíþróttum eru frændi hennar sem kom henni inn í tölvuleiki í upphafi ásamt Bjarna, leikmanni Dusty í Vodafonedeildinni í CS:GO. Hún segir Bjarna hafa veitt henni mikinn stuðning síðustu mánuði, en þau kynntust í gegnum FRÍS. „Faðir minn er einnig stór stuðningsaðili og er það honum að þakka að ég hef orku og rétt hugarfar gagnvart þessu öllu,“ segir Rakel. 

Kvenkyns fyrirmyndir í rafíþróttum vanti

Rakel segir á að það hafi hingað til vantað kvenkyns fyrirmyndir í rafíþróttum hér á landi fyrir yngri kynslóðir og hvetji það hana áfram vitandi að hún getur verið fyrirmynd fyrir yngri stelpur sem hafa áhuga á tölvuleikjum. Einnig bendir Rakel á að það voru einungis örfáar stelpur sem kepptu á FRÍS og í Almenna Bikarnum í Valorant.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert