„Maður verður háður árangrinum“

Ljósmynd/Gunnar Þór Sigurjónsson

Karl Leó Sigurþórsson er 23 ára gamall rafíþróttamaður en hann er einnig þekktur sem „Sófasett“ og hefur bæði verið að keppa og þjálfa í tölvuleiknum Rocket League.

Karl byrjaði að keppa í fyrstu persónu skotleiknum Call of Duty: Black Ops en þá stofnaði hann sér lið til þess að keppa í mótum á netinu. „Nafnið á þessu liði skammast ég mín fyrir en það hét D3MeNtEd Gaming og rafheitið mitt var þá ProFFi,“ segir Karl en hann þjálfar hjá Þór á Akureyri í dag og keppir með vinafélaginu Bíddaðeins.

Ný og sterk lið í úrvalsdeildinni

„Ég er nýlega útskrifaður úr háskóla og leita mér að vinnu sem tengist gagnavinnslu. Mun samt leika mér með liðinu Bíddaðeins í 2.deild,“ segir Karl en hann mun einnig leggja sig allan fram við að styðja sína menn í Þór á Akureyri til að ná sem lengst í þriðja tímabili RLÍS (Rocket League Ísland) svo óhætt er að segja að spennandi hlutir séu framundan hjá honum.

„Við þurfum allir að leggja okkar af mörkum til að ná sama árangri og á síðasta tímabili. Það eru komin ný og sterk lið inn í úrvalsdeildinna og hver einasti leikur verður barátta.“

„Á síðasta tímabili var æfingarútínan þannig að ég æfði tæknilega hluti (e. mechanics) á morgnana fyrir skóla/vinnu og spilaði leiki eftir skóla/vinnu. Tók eitt atriði fyrir og æfði það sérstaklega í vissan tíma. Þannig t.d. alla morgna í einni viku var ég í "Dribbling Challange #2" til að æfa mig að dribble-a (þ.e. reka bolta). Á kvöldin í þeirri viku reyndi maður þá að spila 1s (einn á móti einum) og leggja áherslu á að dribble-a sem mest.“ segir Karl og nefnir einnig að Rocket League sé hans uppáhalds leikur þó að leikjaserían Kingdom Hearts sé það líka.

Rafíþróttir í stöðugum vexti á Íslandi

Karl fékk fyrst að spila í PC-tölvu móður sinnar en spilaði hann þá aðallega tölvuleikina Age of Empires 2, Worms og Wolfenstein: Return to Castle. Móðir hans hafði einnig komið honum upp gamalli PlayStation 1 leikjatölvu með stóru leikjasafni.

„Fyrir mér hafa rafíþróttir verið í stöðugum vexti og verið stórar í langan tíma í útlöndum. Ísland hefur verið og er mikið eftir á í þessum málum. En Ísland er búið ná miklum árangri á síðustu árum. Ég fylgdist mikið með MLG þegar áhugi minn á COD var sem mestur. Sem krakki var það stórt en það er ekkert í likindum við rafíþróttir í dag,“ segir Karl og hvetur alla til þess að byrja að spila tölvuleikinn Rocket League - og þá sérstaklega konur. „Það vantar fleiri konur í RL samfélagið og það á einnig við um rafíþróttir í heildina,” segir Karl.

Enginn eins og Rocket League

„Að mínu mati er enginn tölvuleikur sem líkist líkamlegri íþrótt eins og Rocket League. Maður verður háður árangrinum og hann er mjög sýnilegur. Allir byrja með sömu getu í leiknum. Það er enginn leikur eins og þessi. Þú munt hoppa í leikinn í fyrsta sinn og hreinlega átta þig á því að það er erfitt að hitta boltann þrátt fyrir að hann sé kyrrstæður en áður en þú veist af ertu byrjaður að fljúga um völlinn með boltann á nefinu,“ segir Karl um tölvuleikin Rocket League en hægt er að fylgjast með honum á streymisveitunni Twitch undir notendanafninu Sofasett.

mbl.is