Konan sem talar við sjálfa sig í beinni

Móna Lind er íslenskur streymir. Hún er einnig þekkt sem …
Móna Lind er íslenskur streymir. Hún er einnig þekkt sem DiamondMynXx. Ljósmynd/Aðsend

Móna Lind Kristinsdóttir, einnig þekkt sem DiamondMynXx, Diamond og MynXx, er 31 árs gamall tölvuleikjastreymir og streymir á Twitch-rásinni DiamondMynXx en hún streymir einnig vikulega á GameTíví

Móna spilar leiki á borð við Call of Duty, Valorant, Apex Legends auk þess að eyða tíma í hermileikjum sem og sjálfsbjargarleikjum.

„Ég spila svo mikið af fjölbreyttum leikjum að stundum finnst mér ekki nægur tími til að spila allt sem mig langar,“ segir Móna í samtali við mbl.is.

Söfnuðu öllum aukapökkunum

Fyrsti leikur sem hún spilaði var þó sennilega Commaned Keen 2: Keen Must Die! en þann leik spilaði hún mjög mikið með vinkonu sinni. Auk hans spiluðu þær vinkonur mikið af hermileiknum Sims 1 og tekur Móna fram að þær hafi safnað öllum aukapökkunum.

Um þessar mundir er hún að undirbúa að „Throwback Thursday“ á streyminu sínu og reiknar hún með að að halda það vikulega. Hún hefur gert það áður og virtist fólk hrifið af því en þá spilaði hún gamla leiki eins og Grim Fandango og Full Throttle.

Einnig hefur hún hug á að skipuleggja einskonar „hittinga“ á Discord rásinni sinni og gera þá eitthvað skemmtilegt með fólkinu þar.

Kom mjög náttúrulega

Hún byrjaði fyrst að streyma árið 2018 en hafði litla trú á sjálfri sér og tölvubúnaðinum sem hún hafði þá svo hún hætti eftir nokkur streymi. En í nóvember 2021 gerðist eitthvað hjá henni og hóf hún streymi á ný, þar sem hún er alltaf að spila leiki með vinum sínum eða ein.

„Ég hugsa svo svakalega mikið upphátt eða með öðrum orðum, tala ég við sjálfa mig, og þá tala ég „non stop“ á meðan ég spila tölvuleiki. Svo að tala við áhorfendur í gegnum streymið kom bara mjög náttúrulega.“

Móðir Mónu segir hana ekki hafa hætt að blaðra frá því hun byrjaði á því og finnst Mónu bara frábært ef einhver hefur gaman af því að horfa á „ruglið í henni“.

Talar mikið við áhorfendur

Það er mikilvægt fyrir Mónu að velja leiki til þess að spila með áhorfendum sem hún nýtur þess að spila, því þá skín í gegn nautn hennar á spiluninni.

Eins leggur hún mikið upp úr því að vera í góðum samskiptum við fólkið í spjallglugganum og finnst henni það vera eitt af því skemmtilegasta sem hún gerir í þessu öllu saman. Það skiptir hana miklu máli að allir upplifi sig velkomna í spjallglugganum og á Discord rásinni hennar.

„Það er stór partur af streyminu að spjalla um allt á milli himins og jarðar.“

Fólkið í spjallinu notast stundum við rásarstig (e. channel points) en þá birtast myndbönd með hljóðum á streyminu hennar sem fá hana til að gera allskonar „skrýtna og skemmtilega hluti“.

DiamondMynXx með fullan munn af sykurpúðum í afmælisstreyminu sínu.
DiamondMynXx með fullan munn af sykurpúðum í afmælisstreyminu sínu. Skjáskot/Twitch/DiamondMynXx

Hefði notið sín í rafíþróttum

Telur það mikið ánægjuefni hversu margar deildir eru að spretta upp um allt land í rafíþróttum og veit hún til þess að bæjarfélögin gætu verið virkari og tekið meiri þátt í að byggja upp rafíþróttafélögin. Enda eru rafíþróttir vaxandi iðnaður og finnst Mónu það frábært.

„Ég sem barn fann mig aldrei í þessum hefðbundnu íþróttum og hefði pottþétt notið mín til fulls að fá að vera partur af rafíþróttaliðið,“ segir Móna.

„Ég gat ekki sparkað í bolta án þess að hann endaði einhvern veginn aftur í andlitinu á mér en ég var töluvert minna meidd í tölvuleikja heiminum.“

Þakklát fyrir fólkið

Það sem er minnistæðast í huga Mónu úr tölvuleikjaheiminum er allt það fólkið sem hún hefur fengið að kynnast í kringum tölvuleikina og streymin og þykir henni orðið mjög vænt um allt þetta fólk.

„Ég er svo þakklát fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið. Það er síðan alveg magnað að fá að vera partur af GameTíví með þáttinn Queens með bestu vinkonu minni, henni Valgerði.“

Telur hún félagshópinn sinn vera einn þann fáránlegasta en á sama tíma þann flottasta sem fyrir finnst.

Vill vera áfram skrýtin

Markmiðið hennar Mónu er fyrst og fremst að halda áfram að vera skrýtin og skemmta sér. Hún leggur þó einnig mikla vinnu í að búa til efni til þess að setja á aðra miðla. Miðla á borð við Instagram og TikTok og vill halda áfram að bæta sig í þessu og kynnast fleira af íslenskum tölvuleikjaspilurum sem og streymurum.

Ráðleggur hún öðrum upprennandi streymurum að láta af hræðslunni og vera ófeiminn við að byrja að streyma með þann búnað sem þeir hafa nú þegar. Einnig mælir hún með því að streymarar komi með sitt eigið „twist“ á streymin og að búa til efni utan streymisins sem hægt er að deila á fleiri miðlum.

„Ekki bíða eftir að rétta augnablikið komi til að byrja, því það er bara ekki til eins og með svo margt annað í lífinu.“

Aðspurð hvernig henni líði segir hún að lokum „Mérlíðubaraáblavelbara“.

Hér er hægt að nálgast alla hlekki á samfélagsmiðla Mónu.

Vilt þú vera leikmaður vikunnar? Sendu okkur skeyti á vidja@mbl.is

mbl.is