Meira en bara rakarastofa í WoW Classic

World of Warcraft Classic, Wrath of the Lich King.
World of Warcraft Classic, Wrath of the Lich King. Grafík/Activision Blizzard

Væntanleg útgáfa Wrath of the Lich King fyrir World of Warcraft Classic mun breyta leiknum á nokkra vegu. Dýflissuskanni (e. dungeon finder) verður t.d. ekki innifalinn í endurútgáfu Wrath, en þess í stað fá leikmenn bætta hönnunarmöguleika á persónum sínum á rakarastofunni.

Aðalframleiðandi World of Warcraft Classic, Holly Longdale, segir möguleikana á rakarastofunni færast í aukana þegar Wrath of the Lich King verður spilanlegur í Classic.

Meira en bara rakarastofa

„Við vissum að við myndum koma upp rakarastofu á ný, en þegar við horfðum á hana, þá var hún bókstaflega bara rakarastofa - þú gast aðeins breytt hárinu þínu,“ segir hún í samtali við PC GamesN.

„Við erum ekki bundin við tæknilegu takmarkanirnar sem voru til staðar árið 2008, svo við litum á anda rakarastofa og raunverulegan tilgang þeirra, sem er að leyfa þér að tjá sjálfan þig á þann hátt sem þú vilt.“

Longdale segir rakarastofuna í Lich King Classic gefa leikmönnum færi á að breyta hárlitnum sínum, andlitinu og kyni í skiptum fyrir gull. Fleiri drög eru á borðinu varðandi eiginleika rakarastofunnar þó að þeir verði ekki allir til staðar við útgáfu

Stefna á að auka fjölbreytileika

Spurð út í andlitsmöguleika með asískum og svörtum andlitsdráttum í Shadowlands-aukapakkanum, segir hún það vera á „gerðu það!“-, og „við verðum að gera það!“-listum þróunaraðila

„Hundrað prósent, við viljum fjárfesta í því. Það eru mörg tæknileg atriði sem við þyrftum að gera til þess að koma því fyrir í Classic, en já algjörlega. Það gæti ekki verið strax við útgáfu, en það er eitthvað sem við viljum gera,“ segir Longdale.

„Við viljum útvega ykkur hvert einasta tækifæri sem við getum, þar sem þú getur tjáð sjálfan þig á hátt sem þér líður vel með.“

Staðfestur útgáfudagur fyrir Wrath of the Lich King hefur ekki verið gefinn upp en Blizzard segir leikinn koma út síðar á árinu.

mbl.is