Opinbera „Aurora Verkefnið“

Aurora Verkefnið snýr að nýjum Call of Duty-farsímaleik.
Aurora Verkefnið snýr að nýjum Call of Duty-farsímaleik. Grafík/Activision Blizzard

Activision Blizzard hefur opinberað Call of Duty-leik sem verður spilanlegur á farsímum en hann gengur undir gælunafninu „Aurora Verkefnið“.

Aurora Verkefnið verður battle royale-leikur sem miðar að „ferskri og nýrri leið til þess að spila“. Framleiðsluverið tilkynnti um leikinn á vefsíðu sinni, og segir tilkynninguna vera fyrstu af mörgum og reglulegum uppfærslum um þróun leiksins.

Hvíslast á um leikinn

Sögusagnir um leikinn bárust á milli manna fyrr á árinu eftir að Activision birti atvinnuauglýsingar er sneru að gerð Warzone-farsímaleiks, en þetta mun vera fyrsta opinbera tilkynningin um leikinn.

„Þið gætuð hafa heyrt einhver hvísl um Aurora Verkefnið í dýpum Reddit eða útfrá vangaveltum á YouTube, en við höfum ekki opinberlega sýnt frá neinu ennþá,“ segir í tilkynningunni.

Leikurinn í prufuspili

Fyrsta prufuspilið er nú þegar hafið í leiknum í lokaðri Alpha-útgáfu, en þar er lítill hópur einstaklinga sem prófar að spila leikinn svo þróunaraðilar geti komið auga á gloppur, fínstillt hann og fleira. 

Prufuspilarar í lokuðu Alpha-útgáfunni eru fáir og bundnir þagnaðarskyldu um verkefnið, en fregnir af leiknum munu berast á Call of Duty-heimasíðunni.

mbl.is