Fall Guys orðinn að fríspilunarleik

Fyrsta tímabilið í Fall Guys eftir að hann varð gjaldfrjáls …
Fyrsta tímabilið í Fall Guys eftir að hann varð gjaldfrjáls til spilunar er hafið. Grafík/Mediatonic

Hinn litríki fjölspilunarleikur Fall Guys er nú orðinn gjaldfrjáls til spilunar en fríspilunar-útgáfan er aðeins aðgengileg á Epic Games sem stendur.

Fyrsta tímabilið í leiknum er nú hafið og færir leikmönnum ný svæði, viðburði, tímabilspassa og gjaldmiðil.

Framleiðsluverið á bakvið leikinn, Mediatonic, segir að stuðningur við leikinn á Steam muni halda áfram, en leikurinn hefur verið fjarlægður af veitunni.

Keypt af Epic Games

Mediatronic staðfesti í síðasta mánuði að leikurinn yrði gjaldfrjáls til spilunar þann 21. júní, sem vakti spurningar í sambandi við aðgengi að honum á leikjaveitunni Steam þar sem að Epic Games keypti Mediatonic á síðasta ári.

Leikurinn hefur verið tekinn úr sölu á Steam, en þeir sem höfðu áður keypt hann hafa enn aðgengi að honum.

Medatonic segist ætla að halda áfram að styðja við Steam-útgáfuna og uppfæra hann samhliða leiknum á Epic Games og Nintendo. Þá mun leikurinn á Steam styðja við blandaða spilun og árangur líkt og á öðrum veitum.

Sambærileg staða

Þetta er sambærilegt því sem gerðist með tölvuleikinn Rocket League þegar hann varð að fríspilunarleik á Epic Games.

Rocket League er enn reglulega uppfærður á Steam, svo líkur eru á að fyrirkomulagið með Fall Guys verði eins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert