Hafði aldrei heyrt um leikinn en vann svo mótið

Natasja Dagbjartardóttir, Íslandsmeistari í Mario Kart, ásamt Söru Mist Sverrisdóttur, …
Natasja Dagbjartardóttir, Íslandsmeistari í Mario Kart, ásamt Söru Mist Sverrisdóttur, bestu vinkonu hennar. Ljósmynd/Elín Guðmundsdóttir

Natasja Dagbjartardóttir og Sara Mist Sverrisdóttir sáu sér leik á borði eftir Íslandsmeistaramótið í Mario Kart og fylgdu sigrinum eftir með því að vinna tölvuleikjakeppni á vegum Tölvuteks.

Tölvutek hélt keppni í tölvuleiknum Robot Unicorn Attack í Mörkinni fyrr í mánuðinum sem hluta af afmælishátíð Tölvuteks. Þar bauðst keppendum að spreyta sig í leiknum í von um að vinna Ducky One lyklaborð með led-ljósum.

Sara Mist Sverrisdóttir tók þátt ásamt syni sínum, sem vermdi fyrsta sætið hálfa keppnina. Síðan hafði annar keppandi skorað fleiri stig og með því náð fyrsta sætinu þar sem keppendur höfðu aðeins eina tilraun til.

Náði að æfa sig tíu sinnum

Varð Söru þá hugsað til vinkonu sinnar, Natösju Dagbjartardóttur, sem gerðist Íslandsmeistari í Mario Kart í síðasta mánuði eftir að Sara skráði hana til leiks.

Þá hringdi Sara í Natösju, sem þó hafði aldrei fyrr heyrt um þennan leik, og bað hana um að prófa leikinn meðan hún væri á leiðinni að sækja hana. 

„Sko ég vissi hvorki af þessu móti né hafði ég heyrt um þennan leik áður,“ segir Natasja í samtali við mbl.is og bætir við að hún hafi náð að æfa sig tíu sinnum áður en Sara var komin til hennar.

„Ég fór með hana beint á hátíðina til að taka þátt og auðvitað vann hún léttilega með miklum yfirburðum, og enginn átti séns þótt hún hefði prófað leikinn í fyrsta sinn tíu mínútum fyrir keppni,“ segir Sara í samtali við mbl.is.

Ryðja sér til rúms

Má því segja að sagan hafi endurtekið sig frá því í síðasta mánuði, þegar Sara skráði Natösju á tölvuleikjamót og þær vinkonur unnu fyrstu verðlaun handa syni hennar Söru.

Ljóst er að hér er um að ræða sterkt tvíeyki sem virðist vera að ryðja sér til rúms í rafíþróttasenunni á Íslandi og segir Sara að þær muni skrá sig til leiks í fleiri mót og keppnir á næstunni. 

Þar að auki er Natasja að þjálfa Söru í Mario Kart um þessar mundir sem þýðir að á næsta Íslandsmeistaramóti munu keppendur mæta þeim báðum.

mbl.is