Halda áhorfsveislu í Arena annað kvöld

Riot Games hefur há markmið fyrir úrslitin í heimsmeistaramóti League …
Riot Games hefur há markmið fyrir úrslitin í heimsmeistaramóti League of Legends. Grafík/Riot Games

Komið er að lokaspretti heimsmeistaramótsins í League of Legends en úrslitin verða spiluð á miðnætti annað kvöld, aðfaranótt sunnudags. Í Arena í Kópavogi verður haldin áhorfsveisla fyrir úrslitin ásamt ARAM-móti í leiknum.

Mótið fer fram í San Fransiskó í Bandaríkjunum að þessu sinni og eru það liðin DRX og T1 sem mætast í úrslitaviðureigninni annað kvöld.

Tugi milljóna áhorfenda

Á síðasta ári fór mótið fram í Laugardalshöllinni hér á Íslandi og fylgdust um 74 milljónir einstaklinga með úrslitaviðureigninni þegar mest lét.

Þrátt fyrir að mótið fari ekki fram á Íslandi í ár fékkst ágætis landkynning í aðdraganda mótsins.

Þá tók Riot Games, framleiðandi League of Legends, upp hvatningarmyndband við Almannagjá á Þingvöllum til fögnuðar um norræna leikmenn sem keppa um heimsmeistaratitilinn ár.

Riot Games hefur háar væntingar fyrir úrslitin og mun t.d. rapparinn Lil Nas flytja lofsöng heimsmeistaramótsins í ár. 

Þá flytur hann lagið Star Walkin í beinni útsendingu, sem var samið sérstaklega fyrir mótið í ár.

Keppt í LoL og dregið úr happdrætti 

Sem fyrr segir hefjast úrslitin á miðnætti og verða sýnd í rafíþróttahöllinni Arena í Kópavogi, en úrslitin gætu staðið yfir fram að sunnudagsmorgni klukkan 05:00.

Um kvöldið verður dregið úr happdrætti þar sem hægt verður að vinna sér inn heimsmeistaramóts-varning frá Riot Games. Auk happdrættisins verður haldið ARAM-mót áður en úrslitin hefjast. Á hugasamir skráð sig til leiks bæði sem einstaklingar eða sem fullskipað lið.

Í tilkynningu sem var birt á Facebook-hóp íslenska League of Legends-samfélagsins segir að mæting sé hvenær sem er yfir kvöldið og eru allir hvattir til þess að mæta.

Skráningin í ARAM-mótið fer fram í gegnum þennan hlekk en allir eru velkomnir í áhorfsveisluna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert