Renault ræður Hülkenberg

Nico Hülkenberg keppir fyrir Renault næstu árin.
Nico Hülkenberg keppir fyrir Renault næstu árin. AFP

Það fór eins og liggja þótti í loftinu í morgun, að Renaultliðið staðfesti seinni part dags að það hefði ráðið Nico Hülkenberg sem keppnisökumann á næsta ári.

Að sögn Renault er um samning til „margra ára“ að ræða og sjálfur segir Hülkenberg að um „draumastarf“ sé að ræða. 

Þýski ökumaðurinn, sem er 29 ára, hóf feril sinn sem ökumaður Williams árið 2010, en þaðan lá leiðin árið eftir til Force India. Keppti hann þó eitt ár, 2013, fyrir Sauber en sneri strax aftur til indverska liðsins.

Hann hefur og afrekað það að aka til sigurs í franska sólarhringskappakstrinum í Le Mans í fyrra.

Force India skýrði frá burtför Hülkenberg í morgun og kveður hann liðið eftir síðasta mót vertíðarinnar. Renault hefur ekkert tjáð sig um hver komi til með að keppa við hlið hans; hvort það verði annar núverandi ökumanna, Daninn Kevin Magnussen og Bretinn Jolyon Palmer, eða einhver annar nýr.

Nico Hülkenberg á að baki 113 mót í formúlu-1. Besti árangur hans í keppni er fjórða sæti en þrisvar sinnum hefur hann klárað kappakstur í því. Einu sinni hefur hann unnið ráspól.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert