Titill innan fimm ára „raunhæft“

Jolyon Palmer á Renault (t.v.) tekur fram úr Marcus Ericsson …
Jolyon Palmer á Renault (t.v.) tekur fram úr Marcus Ericsson á Sauber í Suzuka í Japan á dögunum. AFP

Tæknistjóri Renaultliðsins, Bob Bell, segir það markmið liðsins að vinna heimsmeistaratitla í formúlu-1 innan fimm ára.  

Þetta takmark hafi forstjóri franska bílsmiðsins, Carlos Ghosn, sett liðinu eftir að Renault það yfirtók Lotusliðið við lok keppnistímabilsins í fyrra.

Bell telur þetta „raunhæft markmið“en Renault vann á sínum tíma titla bæði bílsmiða og ökumanna árin 2005 og 2006.

„Herra Ghosn er afar skýr í markmiðasetningu sinni fyrir liðið. Hann er ekki í þessu til að fylla hópinn, heldur til að sjá liðið ná árangri. Á næsta ári ætlum við að stíga skrefið inn í miðjan hóp og vera samkeppnisfærir þar. Árið 2018 munum við stefna á pallsæti og í framhaldi af því að vinna mót og titla. Þetta eru engin stórvísindi,“ segir Bell og skírskotar til framgangs bæði Mercedes og  Red Bull á undanförnum árum.

Hann segir það hafa tekið liðin um fimm ár að vinna titla, eftir að Red Bull keypti Jaguar og Mercedes keypti Brawan. Hið sama hafi átt við eftir að Renault keypti Benettonliðið.

Renault hefur aðeins þrisvar á árinu átt ökumann meðal 10 fremstu og er í níunda sæti af ellefu í keppni liðanna.

mbl.is