Nýja vélin passar ekki í bílinn

Sauberliðið neyðist til að keppa vertíðina út í gegn með ársgamlar Ferrarivélar í bílum sínum. Ástæðan er sú að 2017-vél Ferrari passar ekki í Sauberbílinn.

Þetta staðfestir liðsstjórinn Monisha Kaltenborn en breytingar á ytri málum vélarinnar gera að verkum að hún passar ekki í bíl Sauber.

Sauber gekk til móts við yfirstandandi keppnistíð með það sem upplag, að krækja í stig í fyrstu mótum meðan liðin væru að þróa og bæta endingartraust 2017-vélanna. Í ljósi mikilla framfara í 2017-vélanna eru þær vonir þegar gufaðar upp.

Kaltenborn viðurkennir að hún hafi gert sér vonir um mun betri árangur í Melbourne en raunin varð á. Reyndist Sauber þar með hæggengustu bílana.  Hún vill bíða aðeins og sjá til að átta sig á hinum raunverulega mun, ekki síst þar sem ýmsar uppfærslur í vél og bíl eru á döfinni.

„Melbourne gefur aldrei rétt mynd af stöðunni, við þurfum eins og tvö mót í viðbót til að fá þá mynd,“ segir hún við breska akstursíþróttaritið Autosport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert