Alonso sigrar í frumraun sinni

Fernando Alonso bætti skrautfjöður í hatt sinn er hann fór með sigur af hólmi í sínu fyrsta þolakstursmóti með Toyotaliðinu.

Um var að ræða sex klukkustunda kappakstur sem fram fór í Spa Franchorchamps brautinni í Belgíu á laugardag. Liðsfélagar hans voru Sebastien Buemi og Kazuki Nakajima.

Fengu þeir afar harða keppni frá seinni Toyotabílnum sem Mike Conway, Kamui Kobayashi og Jose Maria Lopez skiptust á að aka. Sá bíll hóf keppni með akstursvíti - settur einum hring á eftir - fyrir meint brot í tímatökunni.

Vegna ítrekaðra ferða öryggisbíls út í brautina tókst ökumönnum hans að vinna sig aftur inn í keppnina og ógna liðsfélögum sínum. Ákváðu stjórnendur Toyota á endanum að skipa ökumönnunum að halda óbreyttri röð á allra síðustu hringjunum og þar með segja seinni bílnum að láta ógert að reyna framúrakstur.     

Voru yfirburðir Toyota miklir í mótinu en þegar flaggið féll í lokin voru þeir tveimur hringjum á undan þrija bílnum, bíl Rebellion-liðsis sem Andre Lotterer, Neel Jani og Bruno Senna óku.

mbl.is