Mourinho: Ronaldo telur sig vita allt

Jose Mourinho er farinn frá Real Madrid til Chelsea.
Jose Mourinho er farinn frá Real Madrid til Chelsea. Reuters

Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho, sem tekinn er við Chelsea á nýjan leik, segir að landi sinn og lærisveinn hjá Real Madrid, Cristiano Ronaldo, hafi ekki getað tekið leiðbeiningum. Ronaldo hafi sjálfsagt talið sig vita allt sem hann þyrfti að vita.

„Það var eitt vandamál varðandi hann (Ronaldo). Mjög einfalt mál, sem snerist um það þegar þjálfari gagnrýnir leikmann út frá taktísku sjónarmiði, með það í hug að bæta eitthvað sem hægt var að bæta. Hann tók því ekkert sérstaklega vel vegna þess að hann telur sig kannski vita allt, og að þjálfarinn geti ekkert hjálpað honum að verða betri,“ sagði Mourinho í spænska sjónvarpsþættinum Punto Pelota.

„Cristiano átti þrjár frábærar leiktíðir hjá mér en ég veit ekki hvort þær voru hans bestu því hann átti einnig frábæran tíma hjá Manchester United. Ég held að við höfum skapað honum aðstæður til að ná fram sínu besta, setja met og skora mörk,“ sagði Mourinho.

mbl.is