HM-tekjur félagsliða þrefaldast

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Úkraínu.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Úkraínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, mun greiða félögum sem eiga leikmenn í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar samtals 21,5 milljarða íslenskra króna.

Samtök evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, skýrðu frá þessu í gær en þetta er niðurstaðan eftir fundahöld þeirra með FIFA um langt skeið. Upphæðin er þrefalt hærri en greidd var vegna þátttöku leikmanna á HM í Brasilíu árið 2014.

Greiddar eru 893 þúsund ísl. kr. fyrir hvern leikmann á dag, frá og með 1. júní, þegar leikmennirnir eiga að vera lausir fyrir sín landslið til undirbúnings fyrir HM, og þar til viðkomandi lið fellur úr keppni.

Ef landslið Íslands er tekið sem dæmi og gert ráð fyrir að það komist ekki áfram úr D-riðli keppninnar, sem lýkur 26. júní, fengi hvert félag sem ætti leikmann í 23 manna landsliðshópi Íslands samtals 23,2 milljónir króna í sinn hlut. Þá skiptir engu máli hvort leikmaðurinn kemur við sögu í leikjunum eða ekki.

Heildargreiðsla vegna íslenska liðsins, ef það kemst ekki áfram úr riðlakeppninni, verður 534 milljónir króna.

Komist Ísland í 16-liða úrslit og tapi þar lengist dvölin um fjóra eða fimm daga. Ef það eru fimm dagar hækkar upphæðin í 27,7 milljónir á hvern leikmann og í 637 milljónir króna samtals.

Sjá nánar um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag