Brosið eins stórt og Ísland

Kjartani Henry Finnbogasyni dreymir um að spila á HM.
Kjartani Henry Finnbogasyni dreymir um að spila á HM. AFP

Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark Horsens í 1:1-jafnteflinu gegn Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Kjartan jafnaði á 84. mínútu og hafnar Horsens í 6. sæti deildarinnar með 35 stig. 

Efstu sex lið deildarinnar keppa sín á milli um danska titilinn og sæti í Evrópukeppnum. Næst á dagskrá hjá Kjartani eru verkefni með íslenska landsliðinu í Bandaríkjunum, sem hann er ansi spenntur fyrir. Kjartan gaf sér tíma og ræddi við danska miðilinn BT áður en hann hélt vestur um haf. 

„Ég er á leið til San Francisco og New York til að spila við Mexíkó og Perú. Það er spennandi og það væri gaman að vera leikmaður Horsens og fara á HM í Rússlandi," sagði Kjartan og að sögn BT var brosið hans jafn stórt og Ísland er talið barst að HM. 

Kjartan Henry kom til Horsens árið 2014, er það lék í B-deildinni. Fjórum árum síðar, er liðið að leika sitt annað tímabil í efstu deild. 

„Þegar ég fór að sofa í gær dreymdi mig um að ég myndi gera eitthvað mikilvægt í leiknum og það var gott að skora. Ég er búinn að vera með Horsens alla leið, ég skoraði 18 mörk í 1. deildinni og skoraði mikilvægt mark á fyrsta tímabilinu í efstu deild á síðustu leiktíð. Það er gaman að spila fyrir þetta félag og þjálfarann," sagði Kjartan að lokum. Þjálfari Horsens er enginn annar en Bo Henriksen, fyrrum leikmaður Vals, Fram og ÍBV. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert