Mögnuð endurkoma hjá Brøndby

Hjörtur Hermannsson leikur með Brøndby.
Hjörtur Hermannsson leikur með Brøndby. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hjörtur Hermannsson og félagar í Brøndby eru komnir með þriggja stiga forystu á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir magnaðan 3:2 útisigur á Midtjylland í uppgjöri efstu liðanna í Herning í dag.

Midtjylland var komið í 2:0 eftir aðeins 17 mínútna leik en Gustav Wikheim skoraði tvö mörk með aðeins þriggja mínútna millibili. Kamil Wilczek minnkaði muninn fyrir Brøndby á 28. mínútu, 2:1.

Hjörtur hóf leikinn á varamannabekk Brøndby en var skipt inn á þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum.

Midtjylland virtist lengi vel ætla að halda fengnum hlut en Wilczek var aftur á ferð á 80. mínútu og jafnaði metin í 2:2. Fjórum mínútum síðar skoraði Anthony Jung sigurmark Brøndby, 3:2.

Brøndby er nú með 72 stig en Midtjylland 69 þegar sex umferðum er ólokið. Leikur liðanna í Kaupmannahöfn í lokaumferðinni gæti ráðið úrslitum um danska meistaratitilinn en Nordsjælland sem er í þriðja sæti er með 54 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert