Eitt tap í 26 leikjum hjá Belgum

Belgar á æfingu á Laugardalsvellinum í kvöld.
Belgar á æfingu á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Belgar, sem mæta Íslendingum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu á Laugardalsvelli annað kvöld, hafa aðeins tapað einum af síðustu 26 leikjum sínum.

Tapleikurinn kom á móti Frökkum í undanúrslitunum á HM í sumar en Frakkar, sem stóðu uppi sem heimsmeistarar, mörðu 1:0 sigur. Í leiknum um þriðja sætið fögnuðu Belgar sigri gegn Englendingum 2:0.

Í undankeppni HM unnu Belgar níu leiki og gerðu eitt jafntefli og markatala þeirra var 43:6. Það verður á brattann fyrir íslenska liðið annað kvöld en leikmenn íslenska landsliðsins eru rétt búnir að sleikja sárin eftir 6:0 skell á móti Svisslendingum í fyrsta leik sínum í Þjóðadeild UEFA.

mbl.is