Klárlega stærsti leikurinn á þeirra ferli

Sandra María Jessen og Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í …
Sandra María Jessen og Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttunni í fyrri leik Þórs/KA og Wolfsburg. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór/KA mætir þýska stórliðinu Wolfsburg, með landsliðsfyrirliðann Söru Björk Gunnarsdóttur í broddi fylkingar, í síðari viðureign liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Wolfsburg í Þýskalandi í dag.

Þór/KA barðist hetjulega í fyrri leiknum á Þórsvelli á Akureyri þar sem þýsku meistararnir fögnuðu 1:0 sigri.

„Fyrst og fremst verðum við að verjast vel í leiknum og reyna svo að finna einhverjar eyður í skyndisóknum okkar,“ segir Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Þórs/KA í viðtali á heimasíðu Wolfsburg.

„Strax eftir fyrri leikinn fórum við að hlakka til síðari leiksins. Fyrir suma leikmenn er þetta klárlega stærsti leikurinn á þeirra ferli. Þess vegna er ég sannfærður um að allir leikmenn mínir munu berjast eins og þeir geta,“ segir Halldór. Stór skörð hafa verið höggvin í lið Þórs/KA fyrir leikinn í dag því Ariana Calderon, Bianca Sierra og Sandra Mayor munu ekki spila þar sem þær eru í undirbúningi með mexíkóska landsliðinu fyrir undankeppni HM.

„Við áttum svo mörg færi í fyrri leiknum og bæði skot í slá og stöng en við verðum að gera betur. En ég sannfærður um að við lærðum af fyrri leiknum. Jafnvel þótt mótherjar okkar muni ekki gera okkur auðvelt fyrir aftur þá viljum við nýta tækifærin betur. Við erum í góðum gír og viljum komast örugglega áfram,“ segir Stephan Lerch þjálfari Wolfsburg.

Leikurinn hefst klukkan 16 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu á Facebook-síðu Wolfsburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert