Hrafnhildur úr Val til Gautaborgar

Hrafnhildur Hauksdóttir í leik með Val.
Hrafnhildur Hauksdóttir í leik með Val. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Knattspyrnukonan Hrafnhildur Hauksdóttir gekk í dag til liðs við Gautaborg DFF í sænsku C-deildinni. Hrafnhildur kemur til félagsins frá Val, þar sem hún hefur verið samningsbundin frá árinu 2017 en hún var í láni hjá Selfyssingum á síðasta tímabili.

„Þetta er Gautaborg DFF. Félagið er stofnað árið 2013 og hefur unnið sig upp um deildir jafnt og þétt. Liðið er nú í C-deildinni. Ég hef verið í skiptinámi í Svíþjóð. Kærastinn býr úti og mig langaði að sjá hvort það væri tækifæri í boltanum með náminu. Ég ákvað að slá til og ég lenti á mjög góðu liði. Þetta er spennandi,“ sagði Hrafnhildur í samtali við mbl.is í dag. 

Óvíst er hversu lengi Hrafnhildur verður úti og veltur það á náminu hennar. „Lyfjafræðin er kennd á sænsku. Ef ég kemst í hana í haust, eftir skiptinámið, þá verð ég áfram. Ég setti það í samninginn minn að ef ég kemst ekki inn í hana, þá kem ég heim til Íslands og spila þar.“

Kærasti Hrafnhildar er Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkmaður í handbolta. Hann spilar einmitt með Sävehof í Gautaborg.

„Það spilaði eitthvað aðeins inn í, en mig hefur alltaf langað til að prófa boltann í Svíþjóð. Boltinn er mjög tæknilega góður hérna og það kom mér á óvart hversu góður fótboltinn er, miðað við að þetta sé C-deildarlið.

Þetta hentaði mjög vel fyrir mig á þessu augnabliki. Ef mér líst ekki á blikuna þá kem ég bara aftur í íslenska boltann, hann fer ekki neitt,“ sagði Hrafnhildur, en hún á fjóra A-landsleiki að baki og tæplega 100 leiki með Val og Selfossi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert