Skoraði í þriðja leiknum í röð

Árni Vilhjálmsson hefur skorað fjögur mörk fyrir Chornomorets Odessa síðan …
Árni Vilhjálmsson hefur skorað fjögur mörk fyrir Chornomorets Odessa síðan hann gekk til liðs við félagið í lok febrúar á þessu ári. Ljósmynd/Chornomorets

Árni Vilhjálmsson var á skotskónum þegar lið hans Chornomorets Odessa sótti Arsenal Kyiv heim í fallriðli úkraínsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Leiknum lauk með 3:3-jafntefli en Árni kom Chornomorets Odessa yfir með marki úr vítaspyrnu á 10. mínútu.

Sergiy Vakulenko jafnaði metin fyrir Arsenal Kyiv á 57. mínútu en Dmytro Semeniv kom Chornomorets Odessa aftur yfir, fimm mínútum síðar. Vakulenko var aftur á ferðinni á 77. mínútu þegar hann jafnaði metin fyrir Arsenal Kyiv og Oleksandr Kovpak kom Arsenal Kyiv yfir þegar tvær mínútu voru til leiksloka.

Ruslan Babenko tryggði Chornomorets Odessa stig þegar hann jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma en Árni fór af velli í liði Chornomorets Odessa á 82. mínútu. Framherjinn var að skora í sínum þriðja leik í röð fyrir Chornomorets Odessa en þetta var hans fjórða mark á leiktíðinni.

Chornomorets Odessa er í neðsta sæti fallriðilsins með 22 stig, þremur stigum minna en Arsenal Kyiv og Karpaty Lviv sem eru bæði með 25 stig en Chornomorets Odessa á fjóra leiki eftir í fallriðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert