Barcelona setur kröfur á Neymar

Neymar þarf að ganga að kröfum Barcelona ef hann ætlar …
Neymar þarf að ganga að kröfum Barcelona ef hann ætlar sér að snúa aftur til Spánar. AFP

Knattspyrnumaðurinn Neymar nálgast nú endurkomu til spænska stórliðsins Barcelona en það er spænski miðilinn Sport sem greinir frá þessu. Neymar er í dag samningsbundinn franska stórliðinu PSG en hann vill komast burt frá Frakklandi eftir að hafa gengið til liðs við félagið sumarið 2017 fyrir 200 milljónir punda.

Sport er mjög vel að sér í málefnum Barcelona enda miðillinn staðsettur í Katalóníu en spænski miðillinn greinir frá því að Neymar þurfa að taka á sig dágóða launalækkun. Neymar þénar í kringum 700.000 pund á viku hjá PSG en Barcelona er ekki tilbúið að borga honum svona há laun. Þá greinir Mundo Deportivo frá því að Neymar þurfi að falla frá kröfum um ógreiddar bónusgreiðslur sem hann telur sig eiga inni hjá Börsungum.

Í þriðja og síðasta lagi þarf hann að biðja stuðningsmenn félagsins formlega afsökunar á því að hafa viljað yfirgefa félagið árið 2017. Neymar á þrjú ár eftir af samningi sínum við PSG en félagið er tilbúið að selja leikmanninn ef hann hefur ekki áhuga á því að vera áfram í París. PSG vill hins vegar fá svipað verð og þeir borguðu fyrir Neymar á sínum tíma og því gætu samningaviðræður félaganna dregist eitthvað fram á sumar.

mbl.is