Jón Guðni einu einvígi frá riðlakeppninni

Jón Guðni og félagar fóru áfram.
Jón Guðni og félagar fóru áfram. Ljósmynd/Krasnodar

Jón Guðni Fjóluson og félagar í rússneska liðinu Krasnodar eru einu einvígi frá sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir glæsilegan 3:2-útisigur á Porto frá Portúgal í síðari leik liðanna í undankeppninni í kvöld. 

Porto vann fyrri leikinn á útivelli, 1:0, en Krasnodar byrjaði með miklum látum í kvöld og var komið í 3:0 á 34. mínútu. Porto minnkaði muninn í seinni hálfleik en eftir æsispennandi lokamínútur gátu Jón Guðni liðsfélagar hans fagnað. 

Jón Guðni byrjaði á bekknum hjá Krasnodar og kom inn á sem varamaður á 65. mínútu í stöðunni 3:1. Krasnondar mætir gríska liðinu Olympiacos í einvígi um sæti í riðlakeppninni. 

Sverrir Ingi Ingason og samherjar hans hjá gríska liðinu PAOK eru úr leik í baráttunni um sæti í riðlakeppninni. PAOK varð að sætta sig við 2:3-tap fyrri Ajax á útivelli, en Ajax fór alla leið í undanúrslit keppninnar á síðustu leiktíð.

Fyrri leikurinn fór 2:2 og fer Ajax því áfram samanlagt 5:4. Sverrir var allan tímann á varamannabekk PAOK. 

Þá eru Noregsmeistarar Rosenborgar komnir áfram eftir 3:1-heimasigur á Maribor frá Slóveníu. Maribor sló Val úr leik í þar síðustu umferð. Fyrri leikurinn fór einnig 3:1 fyrir Rosenborg og einvígið samanlagt 6:2.

Skotlandsmeistarar Celtic eru úr leik eftir 3:4-tap fyrir Cluj á heimavelli í kvöld. Fyrri leikurinn fór 1:1 og fer Cluj því áfram með 5:4-samanlögðum sigri. Þá féll FC Kaupmannahöfn úr leik eftir afar svekkjandi tap fyrir Rauðu stjörnunni í vítakeppni á Parken. 

mbl.is