Ætla ekki að brenna sig á VAR-mistökum Englendinga

Sá tími sem fer í að bíða eftir niðurstöðu myndbandsdómara …
Sá tími sem fer í að bíða eftir niðurstöðu myndbandsdómara í ensku úrvalsdeildinni fer í taugarnar á mörgum. AFP

Danir ætla ekki að brenna sig á mistökum Englendinga hvað varðar myndbandsdómgæslu á fótboltaleikjum þó þeir ætli að taka hana upp á leikjum í dönsku úrvalsdeildinni frá og með næsta keppnistímabili sem hefst í júlí.

Michael Johansen, formaður dómaranefndar danska knattspyrnusambandsins, kveðst reikna með því að gripið verið til myndbandsdómgæslunnar, sem víðast er kölluð VAR upp á enskan máta, að meðaltali í þriðja hverjum leik í Danmörku. Aðeins verði notast við hana þegar um augljós mistök sé að ræða.

„Ef maður ætlar sem VAR-dómari að eyða tveimur mínútum í að fletta sjónvarpsmyndum fram og til baka til að finna mögulega rangstöðu þar sem munar kannski þremur millimetrum er það bara grín. Slík dómgæsla er hlægileg. Við munum bara grípa til VAR í þriðja hverjum leik að meðaltali og eyða í það að hámarki 25 sekúndum í hvert skipti,“ segir Johansen við Politiken.

mbl.is