Ronaldo jafnaði í uppbótartíma

Cristiano Ronaldo skoraði jöfnunarmarkið úr víti.
Cristiano Ronaldo skoraði jöfnunarmarkið úr víti. AFP

Það verður allt galopið í seinni leik AC Mílan og Juventus í undanúrslitum ítalska bikarsins í fótbolta eftir 1:1-jafntefli liðanna á San Siro í fyrri leiknum í kvöld. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Ante Rebic heimamönnum í Mílan yfir á 61. mínútu. Tíu mínútum síðar fékk liðsfélagi hans Theo Hernández sitt annað gula spjald og þar með rautt. 

Juventus nýtti sér liðsmuninn því Cristiano Ronaldo skoraði jöfnunarmark úr víti í uppbótartíma og þar við sat. 

Liðin mætast á Allianz Stadium, heimavelli Juventus, í síðari leiknum þann 4. mars. Inter Mílanó og Napoli eigast við í hinum undanúrslitaleiknum og þar er staðan 1:0 fyrir Napoli eftir fyrri leik liðanna. 

mbl.is