Ég á góða daga og slæma daga

Pelé á ferðinni í hjólastól.
Pelé á ferðinni í hjólastól. AFP

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé segir að fréttir um að hann sé þunglyndur og hafi dregið sig í hlé á heimili sínu vegna slæms líkamsástands séu mjög orðum auknar.

Sonur hans, Edinho, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina TV Globo á dögunum að faðir hans vildi helst ekki fara út úr húsi þar sem hann  væri með mjög skerta hreyfigetu í kjölfar mjaðmaskiptaaðgerðar á síðasta ári, hefði ekki sinnt endurhæfingu sem skyldi og þyrfti að fara allra sinna ferða í hjólastól.

„Ég er fínn,“ sagði Pelé í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. „Ég reyni að sætta mig við mínar líkamlegu takmarkanir eins og mögulegt er en ég held mínu striki. Ég á góða daga og slæma daga, sem er eðlilegt hjá fólki á mínu aldri, en er ákveðinn og fer í allt af fullu sjálfstrausti. Ég forðast alls ekki að sinna þeim skyldum sem þétt dagskrá hjá mér felur í sér.“

Pelé verður áttræður í október en hann varð þrisvar heimsmeistari með Brasilíu, síðast fyrir fimmtíu árum, í Mexíkó árið 1970, og er talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert