Eins og smákrakki á fyrstu æfingunni

Sara Björk Gunnarsdóttir er leikmaður Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir er leikmaður Wolfsburg. mbl.is/Hari

Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu er í viðtali á vef FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, í dag þar sem fjallað er um bókina hennar, Óstöðvandi, og stöðu hennar á lokakaflanum hjá Wolfsburg í Þýskalandi sem hún yfirgefur í sumar.

Sara segir frá tilurð bókarinnar en eftir að hún hafi verið valin Íþróttamaður ársins 2018 á Íslandi hafi það farið af stað. „Þetta er einhver mesta viðurkenning sem íþróttamaður á Íslandi getur hlotið. Allt íþróttafólk, karlar og konur, í öllum greinum koma til greina. Það var virkilega mikill heiður. Eftir það fékk ég skilaboð frá Magnúsi Helgasyni, sem skrifaði bókina, og hann sagði að nú væri rétti tíminn fyrir mig að segja mína sögu," segir Sara m.a. í viðtalinu og segir meira frá bókinni í framhaldi af því.

Viðtal FIFA við Söru Björk

Sara hefur orðið meistari þrjú ár í röð með Wolfsburg og stefnir á fjórða titilinn áður en hún fer frá félaginu í sumar en þar er hún m.a. orðuð við Evrópumeistarana Lyon. Tímabilið í þýsku kvennadeildinni á að halda áfram frá og með 29. maí og þar er Wolfsburg með átta stiga forystu þegar sex umferðir eru eftir.

„Það er mikil léttir að við getum farið að spila á ný. Þetta verður mjög þétt fram í lok júní en við höfum æft mjög stíft. Við erum byrjaðar að æfa saman sem lið á ný og allar eru í toppstandi. Við erum atvinnumenn og gerðum allt sem fyrir okkur var lagt. Mér líður vel, ég er tilbúin, og það sama er að segja um liðsfélaga mína. Ég hef saknað þess að vera ekki með þeim í búningsklefanum og vera með boltann,“ segir Sara.

„Á undanförnum vikum hef ég áttað mig á því hversu mjög ég hef saknað þess að geta spilað fótbolta. Á fyrstu æfingunni hjá liðinu var ég eins og smákrakki. Ég er þakklát fyrir að við  getum haldið áfram að spila, auðvitað vil ég ljúka þessu tímabili með Wolfsburg með nokkrum leikjum og titlum. Þetta er búið að vera spennandi í deildinni, bikarnum og Meistaradeildinni. Nú hefur þetta breyst en vonandi getum við unnið deildina og bikarinn. Ég  stefni á að ljúka dvöl minni hjá Wolfsburg með tveimur titlum. Það væri stórkostlegt,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Wolfsburg mætir Köln á heimavelli í fyrsta leiknum eftir kórónuveiruhléið eftir viku, föstudaginn 29. maí.

mbl.is