Bæjarar með tíu stiga forskot

Serge Gnabry, Benjamin Pavard og Robert Lewandowski fagna í dag.
Serge Gnabry, Benjamin Pavard og Robert Lewandowski fagna í dag. AFP

Bayern München er komið með tíu stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir 5:0-stórsigur á Düsseldorf á heimavelli í dag. Bayern á aðeins fimm leiki eftir í deildinni og er í afar vænlegri stöðu. 

Staðan, úrslit og næstu leikir í þýsku 1. deildinni

Mathias Jørgensen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 15. mínútu og kom Bayern í 1:0. Benjamin Pavard og Robert Lewandowski bættu við mörkum fyrir hálfleik.

Eftir sjö mínútur í seinni hálfleik var staðan orðin 5:0 þar sem Lewandowski bætti við sínu öðru marki og Alphonso Davies komst á blað.

Bayern er með 67 stig, tíu stigum meira en Borussia Dortmund sem á leik til góða gegn Paderborn á morgun. Leverkusen er í þriðja sæti með 56 stig og Leipzig í fjórða sæti með 55 stig. 

mbl.is