Vaxmynd af Messi minnir á Gylfa Sig.

Vaxmyndin af Lionel Messi.
Vaxmyndin af Lionel Messi. AFP

Mynd af argentínska knattspyrnumanninum Lionel Messi hefur verið afhjúpuð á vaxmyndasafni í Barcelona við misjafnar undirtektir stuðningsmanna Barcelona.  

Ekki er deilt um hvort Messi eigi skilið að vaxmynd af honum prýði safnið heldur er deilt um hversu vel hafi til tekist. 

Ekki er óalgengt að slíkt gerist þegar styttur eða vaxmyndir af frægu fólki eru afhjúpaðar. Umræður á samfélagsmiðlum eru hins vegar nokkuð skemmtilegar fyrir okkur Íslendinga því í mörgum tilfellum þykir fólki vaxmyndin minna meira á knattspyrnumanninn Gylfa Þór Sigurðsson en Lionel Messi. 

Fleiri en Gylfi eru nefndir til sögunnar en hjá fleiri en einum erlendum miðli hafa lesendur nefnt Gylfa. Til dæmis á twitterreikningi tímaritsins Blizzard eins og sjá má hér fyrir neðan. Einnig á facebooksíðu ESPN FC en þar nefnir Ankan nokkur Mukherjee Gylfa til sögunnar og hefur fengið 80 læk á það innlegg.



Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í Ungverjalandi.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu í Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is