Eins svekkjandi og það verður

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Al-Arabi.
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Al-Arabi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson og liðsfélagar hans í katarska knattspyrnufélaginu Al-Arabi voru hársbreidd frá því að vinna sinn fimmta sigur í röð gegn Al-Gharafa á útivelli í úrvalsdeildinni í Katar í dag.

Mehdi Torabi kom Al-Arabi yfir strax á 11. mínútu og Al-Arabi leiddi með einu marki gegn engu í hálfleik.

Jonathan Kodjia jafnaði hins vegar metin fyrir Al-Gharafa á áttundu mínútu uppbótartíma og 1:1-jafntefli því niðurstaðan í Katar.

Aron Einar lék allan leikinn á miðsvæðinu en Heimir Hallgrímsson er þjálfari liðsins og Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari.

Al-Arabi er í sjöunda sæti deildarinnar með 19 stig en liðið hefði með sigri í dag getað skotist upp í sjötta sætið.

mbl.is