Draumaleikmaður Manchester United

Raphael Varane
Raphael Varane AFP

Ef enska knattspyrnufélagið Manchester United myndi bara kaupa einn leikmann í sumar þá ætti það að vera varnarmaðurinn Raphaël Varane frá Real Madríd.

Það er allavega skoðun Garys Nevilles, fyrrverandi leikmanns United, en hann svaraði spurningum aðdáenda á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Neville, sem spilaði yfir 600 leiki fyrir Manchester United á árunum 1992 til 2011, telur mikilvægt að liðið styrki varnarlínuna.

Varane er 27 ára hafsent frá Frakklandi og af mörgum talinn einn sá besti í heimi en hann er samningsbundinn spænska stórliðinu Real Madríd til 2022. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að hann vilji ekki endurnýja þann samning og félagið gæti því þurft að selja hann en Varane er metinn á um 70 milljónir evra.

Þá bætti Neville við að United þyrfti helst að kaupa varnarmann, framherja og hægri kantmann í sumar til að komast nær erkifjendunum í Manchester City á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert