Ný íslensk kvennabylgja í Svíþjóð

Sif Atladóttir er komin af stað með Kristianstad á ný …
Sif Atladóttir er komin af stað með Kristianstad á ný en hún hefur leikið með liðinu frá 2011. mbl.is/Hari

Tíu íslenskar knattspyrnukonur leika í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en þar hefst keppnistímabilið í dag. Með þessu er mesti fjöldi íslenskra leikmanna í deildinni jafnaður en árið 2012 léku einnig tíu Íslendingar í deildinni.

Hafa ber í huga að metið getur fallið síðar á tímabilinu ef fleiri íslenskir leikmenn bætast í hópinn í „sumarglugganum“.

Eflaust á þátttaka Íslands í lokakeppni EM á Englandi á næsta ári sinn þátt í þessari fjölgun en þetta sama gerðist þegar Ísland lék í fyrsta skipti á EM í Finnlandi árið 2009. Þá fjölgaði leikmönnum í sænsku deildinni mjög og níu íslenskar landsliðskonur spiluðu það ár með sænskum liðum.

Næsti toppur kom 2012 eins og áður var getið, árið fyrir lokakeppni EM í Svíþjóð þar sem Ísland komst í átta liða úrslit.

Nú hefur íslenskum leikmönnum í deildinni fjölgað um helming á milli ára, úr fimm í tíu. Sex munu leika í fyrsta sinn í deildinni og koma þær allar frá íslenskum liðum, og þá verður Sif Atladóttir með Kristianstad á ný en hún var í barneignarfríi á síðasta ári.

13 og 11 hjá Elísabet og Sif

Þetta er ellefta tímabil Sifjar í röðum Kristianstad en hún slær þó ekki þjálfaranum við því Elísabet Gunnarsdóttir er að hefja sitt þrettánda tímabil sem þjálfari liðsins.

Kristianstad náði sínum besta árangri frá upphafi í fyrra, hafnaði í þriðja sæti og leikur fyrir vikið í 1. umferð Meistaradeildarinnar í fyrsta skipti síðsumars. Elísabet var valin þjálfari ársins í deildinni í lok síðasta tímabils en uppbygging hennar á liðinu hefur vakið verðskuldaða athygli og viðurkenningu í Svíþjóð.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag þar sem fjallað er um Íslendingana í sænsku deildinni

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert