Slóvakar sigruðu tíu Pólverja

Milan Skriniar fagnar sigurmarkinu.
Milan Skriniar fagnar sigurmarkinu. AFP

Slóvakía er komin á blað á EM karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á Póllandi í Sankti Pétursborg í Rússlandi í dag. 

Slóvakía byrjaði mun betur og það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 18. mínútu. Markið var skráð sem sjálfsmark á markvörðinn Wojciech Szczesny en Robert Mak á heiðurinn af því. Hann fór illa með tvo pólska varnarmenn á kantinum, keyrði að marki og skaut í stöngina, í bakið á Szczesny og í markið. 

Staðan í hálfleik var 1:0, en Pólverjar voru eldsnöggir að jafna í seinni hálfleik því Karol Linetty skoraði af stuttu færi eftir rúmlega hálfa mínútu eftir góðan undirbúning frá Maciej Rybus. 

Grzegorz Krychowiak fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í pólska liðinu á 62. mínútu og aðeins sjö mínútum síðar skoraði miðvörðurinn Milan Skriniar huggulegt sigurmark, er hann tók boltann á kassann og skoraði með hnitmiðuðu skoti. 

Pólverjar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en Martin Dúbravka stóð vaktina vel í marki Slóvaka sem héldu út. Spánn og Svíþjóð eru einnig í riðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert