UEFA hótaði að dæma Dönum ósigur

Christian Eriksen er borinn af velli.
Christian Eriksen er borinn af velli. AFP

Peter Schmeichel, fyrrverandi markvörður danska landsliðsins í fótbolta og Manchester United, segir að UEFA hafi hótað að dæma Dönum 0:3-ósigur gegn Finnlandi í fyrsta leik liðanna á EM.

Christian Eriksen fékk hjartastopp í leiknum og var gert hlé á meðan miðjumaðurinn var fluttur á sjúkrahús. Schmeichel segir leikmenn danska liðsins hafa fengið þrjá kosti í kjölfarið.

„Þeir fengu þrjá kosti; spila leikinn strax, í hádeginu daginn eftir eða gefa leikinn 0:3. Það var ekki val leikmanna að klára leikinn strax heldur neyddust þeir til þess,“ sagði ósáttur Schmeichel við Good Morning Britain.

„Ég sá yfirlýsingu hjá UEFA þar sem kom fram að leikmenn hefðu krafist þess að spila leikinn, en ég veit að það er ekki rétt,“ bætti Schmeichel við. Sonur hans Kasper Schmeichel leikur nú í marki danska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert