Ronaldo setti enn eitt metið - Þjóðverjar á heimleið?

Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo setti einn eitt metið í markaskorun í kvöld þegar hann kom Portúgölum yfir gegn Frökkum úr vítaspyrnu í lokaumferð F-riðils Evrópukeppninnar í fótbolta í Búdapest.

Ronaldo skoraði markið á 31. mínútu og hann hefur þar með skorað samtals 20 mörk í lokakeppnum EM og HM. Hann sló með því met Miroslav Klose frá Þýskalandi sem skoraði 19 mörk í stórmótunum tveimur en Gerd Müller frá Þýskalandi er næstur þar á eftir með 18 mörk.

Flautað hefur verið til hálfleiks og  staðan er 1:1 en Frakkar fengu líka vítaspyrnu, í uppbótartíma hálfleiksins, og Karim Benzema jafnaði úr henni.

Adam Szálai skallar boltann í mark Þjóðverja og kemur Ungverjum …
Adam Szálai skallar boltann í mark Þjóðverja og kemur Ungverjum óvænt yfir í München í leiknum í kvöld. AFP

Ungverjar eru óvænt yfir gegn Þjóðverjum í hálfleik í München, 1:0, en Adam Szálai skoraði á 11. mínútu.

Ef leikirnir enda svona fara Frakkar, Portúgalar og Ungverjar allir í sextán liða úrslitin en Þjóðverjar halda heim á leið sem botnlið riðilsins.

Uppfært kl. 20.23:
Ronaldo hefur skorað úr annarri vítaspyrnu á 60. mínútu og jafnað metin í 2:2. Nú er hann orðinn jafn Ali Daei frá Íran sem markahæsti landsliðsmaður heims með 109 mörk. Ungverjar eru enn yfir gegn Þjóðverjum, 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert