Napoli valtaði yfir Ajax í Amsterdam

Leikmenn Napoli fagna góðum sigri á Ajax í Amsterdam í …
Leikmenn Napoli fagna góðum sigri á Ajax í Amsterdam í kvöld. Liðið er með fullt hús stiga á toppi A-riðils. AFP/François Walschaerts

Sex leikir voru á dagskrá í Meistaradeild Evrópu í fótbolta klukkan 19 í kvöld. Fylgst var með fimm þeirra, í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en leikur Liverpool og Rangers var í sér lýsingu.

Napólí heimsótti Ajax á Johan Cruijff Arena í Amsterdam. Mohammed Kudus skoraði fyrsta markið fyrir Ajax á 9. mínútu en lengra komust heimamenn ekki. Napoli gerði sér lítið fyrir og skoraði sex mörk áður en yfir lauk. Giacomo Raspadori, Giovanni Di Lorenzo og Piotr Zielinski skoruðu í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik bætti Raspadori við öðru marki sínu og þeir Kvicha Kvaratskhelia og Giovanni Simeone bættu við fimmta og sjötta marki gestanna frá Ítalíu, lokatölur 1:6. Napoli er með fullt hús stiga á toppi A-riðils en Ajax er með þrjú stig í 3. sæti riðilsins. Liverpool, sem sigraði Glasgow Rangers 2:0 í kvöld á Anfield er í 2. sæti með 6 stig en Glasgow Rangers rekur lestina í riðlinum án stiga.

Porto tók á móti Bayer Leverkusen á Estádio Do Dragao í Portúgal. Bæði lið skoruðu mörk í fyrri hálfleik sem voru dæmd af með myndbandsdómgæslu og Patrik Schick lét verja frá sér vítaspyrnu undir lok hálfleiksins en markalaust var í leikhléi. Það voru heimamenn sem voru sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum sigur 2:0 með mörkum frá Zaidu Sanusi og Wenderson Galeno.

Club Brugge og Atlético Madrid mættust í Belgíu. Kamal Sowah kom heimamönnum yfir 10 mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks og þegar þrjátíu mínútur lifðu leiks bætti Ferrán Jutgla öðru marki við fyrir Club Brugge. Antoine Griezmann brenndi af vítaspyrnu þegar um fimmtán mínútur voru eftir af leiknum og 2:0 heimasigur Belganna, sem eru með fullt hús stiga á toppi B-riðils, varð staðreynd. Raunar hefur Club Brugge ekki enn fengið á sig mark í keppninni. Porto, Bayer Leverkusen og Atletico Madrid eru í 2.-4. sæti í riðlinum með 3 stig eftir þrjár umferðir.

Inter Mílanó og Barcelona mættust á Stadio Giuseppe Meazza í Mílanó. Það var Hakan Calhanoglu sem gerði eina mark leiksins í viðbótartíma fyrri hálfleiks en Pedri skoraði mark í þeim seinni, sem dæmt var af með myndbandsdómgæslu, lokatölur 1:0. Inter er með sex stig í 2. sæti C-riðils en Barcelona með þrjú stig í 3. sætinu. Bayern Munchen, sem vann 5:0 stórsigur á Viktoria Plzen í kvöld, er með fullt hús stiga á toppi riðilsins en tékkneska liðið er stigalaust á botni hans.

Þá gerðu Frankfurt og Tottenham markalaust jafntefli á Deutsche Bank Park í Frankfurt. Liðin eru með fjögur stig að loknum þremur umferðum, í 2.-3. sæti D-riðils. Sporting frá Lissabon er með sex stig á toppi riðilsins þrátt fyrir 4:1 tap gegn Marseille fyrr í dag. Marseille er með þrjú stig í 4. og síðasta sæti riðilsins.

Leikið verður í E-, F-, G- og H-riðlum á morgun, miðvikudag.

Ferrán Jutgla fagnar marki sínu í kvöld. Club Brugge er …
Ferrán Jutgla fagnar marki sínu í kvöld. Club Brugge er efst í B-riðili með fullt hús stiga og hefur liðið ekki enn fengið á sig mark í riðlakeppninni. AFP/Kenzo Tribouillard
Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 20:57 Leik lokið Öllum leikjum er lokið í kvöld. Úrslitin eru sem hér segir: Bayern Munchen - Viktoria Plzen 5:0 Marseille - Sporting 4:1 Liverpool - Glasgow Rangers 2:0 Porto - Leverkusen 2:0 Club Brugge - Atlético Madrid 2:0 Ajax - Napólí 1:6 Inter Mílanó - Barcelona 1:0 Frankfurt - Tottenham 0:0
mbl.is