Skil að Griezmann sé svekktur

Kylian Mbappé situr fyrir svörum á blaðamannafundi í gær.
Kylian Mbappé situr fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. AFP/Franck Fife

Kylian Mbappé, nýr fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu, kveðst veita því fullan skilning að Antoine Griezmann, nýr varafyrirliði liðsins, sé ósáttur við að hafa ekki verið skipaður fyrirliði.

Franski miðillinn Le Figaro fullyrti að Griezmann, sem er 32 ára gamall, væri svo ósáttur að hann hefði íhugað að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Ekki virðist stefna í það en Mbappé greindi frá því á blaðamannafundi í gær að Griezmann hafi verið svekktur yfir því að Didier Deschamps hafi ekki skipað hann fyrirliða.

„Ég ræddi við Antoine af því að hann var svekktur og satt að segja er það skiljanlegt. Ég sagði honum að það væru góðar líkur á að ég hefði brugðist eins við.

Ég tjáði honum að svo lengi sem ég er fyrirliði og hann varafyrirliði muni ég aldrei vera honum æðri,“ sagði Mbappé.

Frakkland hefur leik í undankeppni EM 2024 í kvöld þegar Holland kemur í heimsókn í sannkölluðum stórleik.

mbl.is