HK bikarmeistari kvenna í fjórða sinn

HK vann í dag magnaðan sigur á Þrótti Neskaupstað í bikarúrslitaleik kvenna í blaki, 3:2, eftir að hafa tapað fyrstu tveimur hrinum leiksins. HK varð þar með tvöfaldur bikarmeistari því fyrr í dag vann karlaliðið sigur á Stjörnunni.

Þetta var fjórði bikarmeistaratitill HK í kvennaflokki en óhætt er að segja að liðið hafi þurft að hafa mikið fyrir honum. Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar en HK tvær þær næstu af miklu öryggi. Oddahrinan var galopin en HK hafði þó frumkvæðið.

HK-ingar fögnuðu að vonum gríðarlega en greina mátti tár á hvarmi Þróttara sem töpuðu fyrir Aftureldingu í úrslitum í fyrra.

Fríða Sigurðardóttir var stigahæst HK í dag með 22 stig og Elsa Sæný Valgeirsdóttir, sem fagnaði einnig sigri sem þjálfari karlaliðs HK, skoraði 20 stig. Hjá Þrótti var Hulda Elma Eysteinsdóttir stigahæst með 16 stig og Lauren Laquerre skoraði 15.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

HK - Þróttur Nes., 3:2
(22:25 - 22:25 - 25:17 - 25:16 - 15:12)

Oddahrinu lokið. 15:12 (3:2) - Ótrúleg endurkoma HK-inga fullkomnuð.

9:6 (2:2) - Fríða Sigurðardóttir búin að vera að næla í góð stig fyrir HK-inga, hvort sem er með smassi, laumu og hávörn.

5:4 (2:2) - Það er grimmileg barátta fyrir hverju stigi núna og stundum með ólíkindum að boltinn haldist frá gólfinu. HK-ingar hafa frumkvæðið.

Hrinu 4 lokið. 25:16 (2:2) - Leikurinn fer í oddahrinu líkt og bikarúrslitaleikur karla. Frábær viðsnúningur hjá HK-ingum. Þróttarar virðast í losti.

21:14 (1:2) - Það þarf ansi margt að gerast til að þessi leikur fari ekki í oddahrinu. Mikil stemning í HK-liðinu þessa stundina.

13:10 (1:2) - Útlitið ágætt hjá HK sem tekur þó leikhlé eftir að Þróttarar hafa skorað þrjú stig í röð.

6:3 (1:2) - Það er ekki sami krafturinn í Þrótturum og í byrjun leiks. HK byrjar fjórðu hrinuna í tilraun sinni til að jafna leikinn og knýja fram oddahrinu. Reynsluboltinn Þórey Haraldsdóttir hefur verið að skila nokkrum mjög góðum stigum.

Hrinu 3 lokið. 25:17 (1:2) - HK-ingar unnu þriðju hrinuna af nokkru öryggi, komust strax í 11:3 og náðu mest tíu stiga forskoti. Kannski að við fáum aftur oddahrinu eins og í bikarúrslitaleik karla.

23:17 (0:2) - Norðfirðingar eru ekki á því að gefa hrinuna eftir og hafa skorað fimm stig í röð til að hleypa smáspennu í hana. Kristín Salín fyrirliði með banvænar uppgjafir. Munurinn er þó enn sex stig.

16:6 (0:2) - Einföldustu móttökur ganga ekki einu sinni upp hjá Þrótturum sem eru að hleypa HK aftur inn í leikinn. Það er alla vega erfitt að sjá HK missa niður forskotið í þessari hrinu.

7:3 (0:2) - HK-ingar hafa skorað fjögur stig í röð og eru yfir, 7:3. Þetta er ekki flókið, HK verður að vinna þessa hrinu til að halda lífi í titilvonunum.

Hrinu 2 lokið. 22:25 (0:2) - Hrina 2 var jöfn og spennandi en aftur vann Þróttur með þriggja stiga mun, eftir að hafa skorað tvö síðustu stigin, og þarf því aðeins að vinna eina hrinu til viðbótar til að landa bikarmeistaratitlinum.

18:19 (0:1) - HK-ingar skoruðu fjögur stig í röð og hafa minnkað muninn í 19:18. Þróttarar voru að taka leikhlé.

14:18 (0:1) - Þessi hrina var öll í járnum til að byrja með en Þróttur er kominn með þægilegt forskot.

6:8 (0:1) - HK-ingar tóku leikhlé eftir að Þróttarar, með fyrirliðann Kristínu Salínu Þórhallsdóttur í uppgjöfunum, skoruðu fjögur stig í röð og komust í 8:6.

Hrinu 1 lokið. 22:25 (0:1) - Þróttur vann fyrstu hrinu eftir að hafa skorað fyrstu tíu stigin í henni. HK gerði vel í að ná að minnka muninn í tvö stig undir lokin en Elsa Sæný sló svo í netið úr uppgjöf og tryggði þar með Norðfirðingum 1:0 forystu.

22:24 (0:0) - Miklar sviptingar í þessari fyrstu hrinu. Þróttur er þó enn yfir en áhlaupið er gott hjá HK-ingum.

9:17 (0:0) - Þróttarar skoruðu 10 stig áður en HK komst á blað. Hrinan er sjálfsagt þeirra en HK-ingar þurfa að koma sér í gang.

0:6 (0:0) - Norðfirðingar byrjuðu frábærlega og skoruðu fyrstu sex stigin. HK-ingar ákváðu að taka leikhlé.

Leikur hafinn.

0. Þróttur Neskaupstað hefur sjö sinnum orðið bikarmeistari en HK þrisvar sinnum. Afturelding er ríkjandi bikarmeistari.

0. Þessi lið mætast einnig í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í ár.

0. Elsa Sæný Valgeirsdóttir leikmaður HK var rétt áðan að fagna bikarmeistaratitli sem þjálfari karlaliðs félagsins.

HK: Mariam Eradze, Hanna María Friðriksdóttir, Karen Björg Gunnarsdóttir, Sesselja Jónsdóttir, Pálmey Kamilla Pálmadóttir, Þórey Haraldsdóttir, Gunnþóra Mist Björnsdóttir, Natalia Ravva, Laufey Björk Sigmundsdóttir, Fríða Sigurðardóttir, Hugrún Óskarsdóttir, Elísabet Einarsdóttir, Elsa Sæný Valgeirsdóttir, Guðbjörg Valdimarsdóttir, Berglind Gígja Jónsdóttir, Herborg Vera Leifsdóttir.

Þróttur Nes.: Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, Sunna Júlía Þórðardóttir, María Rún Karlsdóttir, Eydís Gunnarsdóttir, Lauren Laquerre, Hjördís Marta Óskarsdóttir, Kristín Salín Þórhallsdóttir, Bergrós Sævarsdóttir, Sæunn Skúladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Erla Rán Eiríksdóttir, Helena Líf Magnúsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert