15 ára Íslandsmeistari í hástökki

Kristján Viggó Sigfinnsson varð Íslandsmeistari í hástökki.
Kristján Viggó Sigfinnsson varð Íslandsmeistari í hástökki. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

María Rún Gunnlaugsdóttir kom fyrst í mark í 100 metra grindahlaupi á 92. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum. Mótið fer fram á Sauðárkróki. Hún hljóp á 14,40 sekúndum og var 0,4 sekúndum á undan Guðrúnu Dóru Sveinbjarnardóttur sem varð önnur. Fjóla Signý Hannesdóttir tók bronsið. 

Hinn 15 ára gamli Kristján Viggó Sigfinnsson vann hástökkið. Hann stökk 2,02 metra, sem er persónulegt met. Benjamín Jóhann Johnsen varð annar með stökk upp á 1,99 metra og Jón Gunnar Björnsson hafnaði í þriðja sæti. 

Í kúluvarpi karla vann Kristján Viktor Kristinsson. Hann varpaði kúlunni lengst 14,62 metra. Ingi Rúnar Kristinsson varð annar og Ingvar Freyr Snorrason endaði í þriðja sæti. Ísak Óli Traustason vann 110 metra grindahlaup á 15,10 sekúndum. Einar Daði Lárusson var annar og Andri Fannar Gíslason tók þriðja sætið. 

Dagbjartur Kristjánsson var með yfirburði í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Hann kom í mark á 10:21,65 mínútum. Andri Már Hannesson varð annar á 11:00,28 mínútum og Hjörtur Ivan Sigurbjörnsson varð þriðji. 

Hafdís Sigurðardóttir stökk lengst í langstökki eða 6,30 metra. Birna Kristín Kristjánsdóttir varð önnur með stökk upp á 6,04 metra og Irma Gunnarsdóttir varð þriðja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert