Gólfæfingar Valgarðs í Ástralíu (myndskeið)

Fimleikakappinn Valgarð Reinhardsson hóf í dag keppni á heimsbikarmóti í Melbourne í Ástralíu. Hann keppti í gólfæfingum en á morgun keppir Valgarð í sinni sterkustu grein, stökki, auk þess að keppa á tvíslá og svifrá.

Undankeppnir á hverju áhaldi fara fram í dag og á morgun en aðeins átta efstu komast í úrslit hverju sinni. Valgarð komst ekki í úrslit í gólfæfingum en hann fékk 12,766 í einkunn fyrir sínar æfingar og varð í 20. sæti af 26 keppendum. Áttundi maður inn í úrslit fékk 13,833 í einkunn en hæstur var Ahmet Onder frá Tyrklandi með 14,266 í einkunn.

Gólfæfingar Valgarðs má sjá í meðfylgjandi myndskeiði en hann heldur sem áður segir áfram keppni í nótt eða í fyrramálið að íslenskum tíma.

Samkvæmt nýjum reglum um þátttökurétt á Ólympíuleikunum geta fimleikamenn unnið sér sæti á leikunum með góðum árangri á heimsbikarmótum.

Valgarð Reinhardsson í Ástralíu þar sem hann keppir á heimsbikarmóti.
Valgarð Reinhardsson í Ástralíu þar sem hann keppir á heimsbikarmóti. Ljósmynd/FSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert