Var nálægt því að missa hausinn

Vigdís Jónsdóttir setti Íslandsmet í gær.
Vigdís Jónsdóttir setti Íslandsmet í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þú getur eiginlega ekki ímyndað þér hversu mikill léttir þetta er,“ sagði Vigdís Jónsdóttir, Íslandsmethafi í sleggjukasti kvenna, í samtali við mbl.is í dag. Vigdís, sem er 24 ára gömul, gerði sér lítið fyrir og kostaði sleggjunni 62,38 metra á vormóti Fjölnis sem haldið var í Kaplakrika í gær og setti um leið Íslandsmet.

Þá var hún einnig að bæta sinn besta árangur í greininni um rúman hálfan metra en það var hin 17 ára gamla Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem átti gamla Íslandsmetið, 62,16 metra, en það met setti hún í Borgarnesi í maí í fyrra.

„Í hreinskilni sagt hefur ekkert verið að gerast hjá mér að undanförnu og ég fór inn í með mótið með litlar sem engar væntingar. Ég átti alls ekki von á því að kasta langt en svo byrja ég mótið með þrusukasti og ég var hálfpartinn orðlaus eftir fyrsta kast.

Það er því alveg óthætt að segja að þessi árangur hafi komið mér gríðarlega mikið á óvart en hann kom engu að síður skemmtilega óvart.“

Vigdís Jónsdóttir stundar nám í Bandaríkjunum.
Vigdís Jónsdóttir stundar nám í Bandaríkjunum. mbl.is/Árni Sæberg

Reyndi að ná upp fyrr styrk

Vigdís stundar nám við háskólann í Memphis þar sem hún er á skólastyrk en vegna kórónuveirufaraldursins snéri hún heim til Íslands í mars.

„Ég kem heim frá Bandaríkjunum 20. mars  þar sem að það var öllu skellt í lás þar í landi vegna kórónuveirunnar. Ég fer svo beint í tveggja vikna sóttkví en fékk engu að síður til mín sleggju sem ég kastaði ein frá degi til dags. Þegar að ég losna úr sóttkví fæ ég að mæta á æfingar með liðsfélögum mínum úr FH en vegna aðstöðuleysis missi ég aðeins tilfinninguna fyrir sleggjunni.

Það gengur lítið upp hjá mér og hausinn hálfpartinn fer. Ég missi svo smá trú á sjálfa mig en það léttir aðeins yfir mér þegar líkamsræktarstöðvarnar opna á nýjan leik. Þá get ég byrjað að koma mér aftur á réttan stað en það gekk hægt fyrir sig og ég er í raun bara búin að vera vinna að því að ná upp fyrri styrk og koma mér í sama stand og ég var í þegar ég kom heim.“

Vigdís Jónsdóttir keppir fyrir FH.
Vigdís Jónsdóttir keppir fyrir FH. mbl.is/Kristinn Magnússon

Klappstýra á bikarmótinu

Vigdís er ríkjandi Íslandsmeistari í sleggjukasti og vonast til að verja titil sinn í byrjun ágúst þegar mótið fer fram í Reykjavík.

„Ég var ekki búin að hitta á stór köst á æfingum og ég var meira búin að vera einbeita mér að tækninni. Á þriðjudeginum ákváðum við síðan að hafa mót og ég var í raun stressuð og óviss um hvort ég ætti að vera keppa yfir höfuð. Svo ákvað ég að láta slag standa eftir hvatningu frá vinum mínum og það hitti svona hrikalega vel á hjá mér.

Það verða einhver mót hjá okkur á næstu vikum en fókusinn í dag er mestur á Meistaramót Íslands í ágúst. Vegna mótafyrirkomulags í bikarmótinu í frjálsum mun ég ekki keppa á bikarmótinu þar sem það verður eingöngu fyrir karlana. Ég verð því klappstýra þar en ég ríkjandi Íslandsmeistari og vonast til þess að verja titilinn,“ sagði Vigdís í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert