„Við fréttum af þessu í fjölmiðlum eins og aðrir“

Laugardalshöllin hýsir alþjóðlegt rafíþróttamót í maí.
Laugardalshöllin hýsir alþjóðlegt rafíþróttamót í maí. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frjálsíþróttafólk kemur til með að missa æfingaaðstöðu sína í sex vikur vegna rafíþróttamóts sem haldið verður í Laugardalshöllinni í maí. „Það er of lítið að frétta,“ sagði Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, er mbl.is hafði samband við hann í dag vegna málsins.

Rafíþróttum vex fiskur um hrygg með hverju árinu sem líður og mun eitt stærsta mót heims fara fram í Laugardalshöllinni í maí. Tugir milljóna horfa á bein­ar út­send­ing­ar frá keppn­um at­vinnu­manna í tölvu­leikjum og hefur Ólaf­ur Hrafn Stein­ars­son, formaður Rafíþrótta­sam­taka Íslands, meðal annars kallað þetta ein­stakt tæki­færi fyr­ir Ísland.

Ekki eru þó allir sáttir við stöðuna. Frjálsíþróttafólk á höfuðborgarsvæðinu kemur til með að missa æfingaaðstöðuna sína sex vikur og það í aðdraganda Ólympíuleikanna sem fara fram í Tókýó í sumar.

„Það er alveg ljóst að í þessar sex vikur verða frjálsar íþróttir ekki inni í Laugardalshöllinni,“ sagði Freyr við mbl.is en hann segir aðalatriðið nú að þessi staða endurtaki sig ekki.

Réttur til að henda frjálsíþróttamönnum út

„Þetta er svo sem löng saga, íþrótta- og sýningarhöllin er byggð sem íþrótta- og sýningarhöll,“ bætti Freyr við en Samtök iðnaðarins eiga hlut á móti Reykjavíkurborg í ÍSH, sem er rekstraraðili Laugardalshallarinnar.

„Frjálsíþróttamenn hafa ákveðna daga þar sem ekki má skerða aðgang þeirra að höllinni en svo eru aðrir dagar sem höllin hefur haft þar sem menn mega gera þetta og þessu hefur aldrei verið breytt. Það er þarna réttur til að henda frjálsíþróttamönnum út og því þarf að breyta.

Þarna fer einhver umræða fram algjörlega án aðkomu íþróttamanna, við fréttum af þessu í fjölmiðlum eins og aðrir. Núna er það lykilatriði fyrir okkur að breyta samningum um höllina svo þetta endurtaki sig ekki. Það er stóra málið.“

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands.
Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands.

Freyr segir alveg ljóst að þetta muni hafa gríðarleg áhrif á frjálsíþróttafólk á höfuðborgarsvæðinu. Erfitt verði að koma því að annars staðar, sérstaklega vegna þess að engin útiaðstaða er í boði.

„Nú er það frjálsíþróttafélaganna í Reykjavík að svara hvert fyrir sig. Það er einhver aðstaða í Egilshöll sem er hægt að nota en annars þarf borgin að fara að semja við önnur sveitarfélög, þetta er mjög erfið staða.

Þetta er svo erfitt vegna þess að það er engin útiaðstaða. Auðvitað væri best að hafa höllina en ef Laugardalsvöllurinn væri í standi þá væri þetta miklu minna mál.“

Þótt þessu verði ekki breytt skipti nú lykilmáli að svona endurtaki sig ekki. „Við erum á ólympíuári og það er heldur betur skrautlegt að lenda í þessu. Við verðum að fá svör núna um hvort þetta muni endurtaka sig. Ætlum við að breyta þessum samningum eða verður það svona næstu árin, að þegar einhverjum dettur eitthvað í hug verði frjálsíþróttamönnum bara hent út?“ sagði Freyr Ólafsson við mbl.is.

mbl.is