Gekk á ýmsu hjá fimmtán stelpum

„Það er alveg klárt mál að þegar fimmtán stelpur eru alltaf saman þá er oft eitthvað sem kemur upp,“ sagði sagði Íris Mist Magnúsdóttir, tvöfaldur Evrópu- og Norðurlandameistari í hópfimleikum, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Íris varð Evrópumeistari í fyrsta sinn með Gerplu árið 2010 og aftur, tveimur árum síðar, með íslenska landsliðinu.

Gerpluliðið var afar náið og eru stelpurnar sem voru í liðinu allar bestu vinkonur í dag en eins og gengur kom ýmislegt upp á hjá liðinu enda voru þær nánast saman dag og nótt þegar æfingaálagið var sem mest.

„Það var samt aldrei neitt drama eða leiðindi eða neitt slíkt. Ef það kom eitthvað upp þá var það rætt, ekki eins og hjá strákum, þar sem er tekið öðruvísi á hlutunum,“ sagði Íris.

„Við héldum svona ruslatunnufundi þar sem var sett ruslatunna í miðjuna. Þar sátum við í hring og allir gátu talað og tjáð sig.

Það mátti ekki ráðast á neinn á þessum fundum og þetta kenndi okkur svakalega mikið,“ sagði Íris meðal annars.

Viðtalið við Írisi í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is