Missir af Meistaramóti Evrópu vegna matareitrunar

Guðlaug Edda Hannesdóttir dró sig úr keppni á Evrópumeistaramótinu í …
Guðlaug Edda Hannesdóttir dró sig úr keppni á Evrópumeistaramótinu í München. Ljósmynd/Þríþrautasamband Íslands

Guðlaug Edda Hannesdóttir þarf að draga sig úr keppni á EM í þríþraut en hún fékk slæma matareitrun og þurfti að eyða þremur dögum á spítala.

Guðlaug Edda er fremsta þríþrautarkona Íslands og meðal annars keppti hún í síðasta mánuði í heimsbikarnum í þríþraut í Pontevedra á Spáni þar sem hún lenti í 28. sæti.

Hún var að búa sig undir Evrópumeistaramótið þegar hún fékk slæma matareitrun í Barcelona og með því fylgdi 41 stiga hiti og innlögn á spítala.

Hún birti mynd af sér á spítalanum á Instagram með textanum:

Í síðustu viku var ég lögð meðvitundarlaus inn á spítala með 41 stiga hita og niðurgang (með blóði). Eftir að við náðum hitanum niður var ég send í rannsóknir, og nú hefur verið staðfest að ég fékk mjög slæma matareitrun (bakteríusýking í meltingarfæri) sem olli miklum bólgum í þörmum með þessum einkennum. Ég lá inn á spítalanum í 3 daga og hef síðan ég kom heim verið að ná mér en það hefur ekki verið nóg til að koma til baka í fullar æfingar. Vegna þessa og fyrir mína eigin heilsu er ég tilneydd til þess að draga mig úr keppni á Evrópumeistaramótinu í Munich.

Eins og þið getið ímyndað ykkur er þetta mikið áfall fyrir mig. Mér þykir svo leitt að ég get ekki verið í keppninni og keppt stolt fyrir Íslands hönd. Það er ekki oft sem þríþraut er sýnd í beinni í sjónvarpinu á Íslandi og þetta var sú keppni sem ég hlakkaði til mest í ár. Ég bið ykkur að sýna mér skilning og vonast til að koma til baka sem allra fyrst.

Anton Sveinn McKee, sundmaður og kærasti Guðlaugar Eddu, fékk einnig matareitrun en hann þurfti ekki að leggjast inn á spítala og mun keppa á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert