Mokuðu inn medalíum á NM

Úlfhildur Unnarsdóttir hreppti silfrið í sínum flokki þrátt fyrir veikindi …
Úlfhildur Unnarsdóttir hreppti silfrið í sínum flokki þrátt fyrir veikindi og slappleika eftir Kýpurför á Smáþjóðaleikana. Ljósmynd/Edward Baker

„Þetta var rosalega gott mót, ég náði 85 kílóum í snörun, sem er tveimur kílóum frá Íslandsmetinu mínu og var bara sátt við það, en mér gekk ekki alveg nógu vel í clean and jerk [jafnhendingu], ég er búin að vera veik síðan ég kom heim frá Kýpur þar sem Smáþjóðaleikarnir voru,“ segir Úlfhildur Arna Unnarsdóttir lyftingakona.

Hún keppti á stóru Norðurlandameistaramóti unglinga í ólympískum lyftingum um helgina þar sem keppendur voru um 100 og lenti í öðru sæti í sínum flokki, -71 kg, á eftir hinni finnsku Janette Ylisoni sem er Evrópumeistari 17 ára og yngri.

„Ég er mjög ánægð með silfrið, þessi finnska er næstbest …
„Ég er mjög ánægð með silfrið, þessi finnska er næstbest í heiminum þannig að maður er ekkert að svekkja sig yfir að hafa orðið á eftir henni.“ Ljósmynd/Edward Baker

„Ég var dálítið þreytt og eiginlega bara búin á því þegar kom að síðustu lyftunni og næ þá 102 kílóum sem er fjórum kílóum frá mínum besta árangri,“ heldur Úlfhildur áfram en Ylisoni hafði 107 kg upp í jafnhendingunni og hreppti því gullverðlaunin í flokknum en Úlfhildur silfur. Keppendur í þeirra flokki voru sjö.

Úlfhildur og Birta Líf Þórarinsdóttir gerðu hins vegar góða för til Kýpur fyrir rúmri viku þar sem Úlfhildur jafnhenti 106 kg og tvíbætti Íslandsmetin í flokki 17 ára og yngri. Birta, sem varð Norðurlandameistari núna um helgina, lyfti hins vegar 85 kg í snörun og 105 í jafnhöttun á Kýpur og jók enn við þær þyngdir á NM.

„Ég er mjög ánægð með silfrið, þessi finnska er næstbest í heiminum þannig að maður er ekkert að svekkja sig yfir að hafa orðið á eftir henni. Ég er líka bara rosalega ánægð með þetta mót, það er frábært þegar svona stór mót eru haldin á Íslandi og maður losnar við flug og ferðaþreytu,“ segir Úlfhildur sem sjálf er nýflutt heim frá Svíþjóð þar sem fjölskyldan bjó um árabil og nemur nú við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

Hún kveðst mjög ánægð með árangur Íslendinga um helgina en Finnar hafi einnig átt stórleik á mótinu. „Ég veit það ekki, kannski er það bara kuldinn sem herðir þá, svipað og hérna á Íslandi,“ segir Úlfhildur, spurð út í hamremmi þeirra finnsku í ólympískum lyftingum.

Búinn að vera að byggja sig upp fyrir þetta

„Undirbúningurinn fyrir þetta mót hefði ekki getað gengið betur,“ segir Brynjar Logi Halldórsson sem varð Norðurlandameistari í -89 kg flokki 18 til 20 ára auk þess að setja sjö Íslandsmet samanlagt í tveimur aldursflokkum, U20 og U23. Þá náði hann lágmörkum fyrir heimsmeistaramótið. Voru fjórir keppendur í flokki Brynjars sem lyfti þyngst 137 kg í snörun og 158 í jafnhendingu og lauk keppni með 295 kg í samanlögðu.

Brynjar Logi í góðum ham á sviðinu um helgina.
Brynjar Logi í góðum ham á sviðinu um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Eins má geta þess að Brynjar varð þriðji stigahæsti karlkeppandi mótsins og átti góða tilraun við 163 kg í jafnhendingu í lokatilraun sinni við gríðarlegan fögnuð viðstaddra þótt ekki hefði sú þyngd ratað alla leið að þessu sinni. Jóhann Valur Jónsson hlaut brons í sama flokki með 238 kg í samanlögðu.

„Ég er búinn að vera að byggja mig upp í þetta met og stefna að þessum þyngdum með því að taka alltaf aðeins þyngra á hverju móti,“ segir Brynjar sem starfar hjá Smith & Norland og nú hyggst taka sér hlé frá keppni um hríð. Ástríðan fyrir ólympískum lyftingum kviknaði í einu vetfangi þegar hann horfði á myndband frá heimsmeistaramótinu árið 2019 á YouTube. Þar með hóf hann að æfa og síðan hefur ekki verið aftur snúið. „Svo var mamma auðvitað í ólympískum lyftingum,“ bætir Brynjar við en móðir hans er Erna Héðinsdóttir, nú dómari í íþróttinni.

Áhugi Brynjars á ólympískum lyftingum kviknaði þegar hann sá myndband …
Áhugi Brynjars á ólympískum lyftingum kviknaði þegar hann sá myndband á YouTube frá heimsmeistaramótinu árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Á leið til Miami að keppa

„Ég ætlaði bara að lyfta því sem þyrfti til að vinna,“ segir Birta Líf Þórarinsdóttir sem varð Norðurlandameistari í -76 kg flokki þar sem þær voru þrjár keppinautarnir. Bætti Birta árangur sinn frá Kýpurförinni og lyfti nú 86 kg í snörun og 107 í jafnhendingu og fékk allar lyftur gildar, samanlagður árangur 193 kg.

Birta Líf skartar þjóðfána sínum um helgina. Hún bar sigur …
Birta Líf skartar þjóðfána sínum um helgina. Hún bar sigur úr býtum í -76 kg flokki. Ljósmynd/Aðsend

„Ég vissi ekkert mikið um stelpurnar í mínum flokki, hve góðar þær væru og hvað þær væru búnar að taka. Þær eru báðar norskar og eftir snörunina var ég með 11 kíló á stelpuna sem lenti í öðru sæti. Þetta var geggjað og líka að sjá alla í stúkunni sem maður þekkti. Þetta var svo gaman,“ segir Birta sem er á leið til Miami í janúar.

„Þar er ég að fara að keppa í crossfit sem ég stunda líka eða reyndar er ég aðallega að æfa crossfit, ég byrjaði fyrr í því og það er mín aðalíþrótt. Crossfit og ólympískar lyftingar eru greinar sem passa mjög vel saman, þú þarft að lyfta líka í crossfit,“ segir Birta sem leggur stund á nám í styrktar- og þolþjálfun við Háskólann í Reykjavík. „Þetta er diplómanám sem tekur eitt ár,“ segir Birta að lokum.

Birta ásamt Sigurði Darra þjálfara sínum. Hún er á leið …
Birta ásamt Sigurði Darra þjálfara sínum. Hún er á leið til Miami til keppni í crossfit. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningurinn ekkert spes

„Ég bætti mig um sex kíló í snörun og þrjú kíló í clean and jerk og það munaði einu kílói á mér og öðru sætinu svo þetta var alveg hörkukeppni,“ segir Bjarki Breiðfjörð sem varð Norðurlandameistari í -81 kg flokki karla 18 til 20 ára þar sem átta manns mættu til leiks.

Snaraði Bjarki 116 kg í þriðju tilraun og jafnhenti 130 kg, 246 í samanlögðu en næstir á eftir honum voru fulltrúar hinna þjóðanna á Norðurlöndum í einni röð upp í fimmta sæti, Dani, Norðmaður, Svíi og Finni. Í sjötta og sjöunda sæti urðu Svíi og Finni og Íslendingurinn Eyjólfur Andri Björnsson varð í áttunda sæti.

Bjarki Breiðfjörð á verðlaunapalli. Hann hefur glímt við axlarmeiðsli sem …
Bjarki Breiðfjörð á verðlaunapalli. Hann hefur glímt við axlarmeiðsli sem þó hindruðu ekki leið hans að gullinu. Ljósmynd/Aðsend

„Undirbúningurinn fyrir þetta mót var nú ekkert spes, ég er búinn að vera tæpur í öxlinni í svolítinn tíma og hef ekki getað „maxað“ neitt fyrir mótin en ég var samt mjög ánægður með þyngdirnar sem ég náði á þessu móti,“ segir Bjarki sem ætlar sér grimmar bætingar á næstunni. „Ég ætla að reyna að ná svona 130 í snörun og 150 til 160 í jafnhendingu,“ segir Selfyssingurinn af stefnumálum sínum en Bjarki er um þessar mundir að ljúka stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og óskar sér helst starfsframa í tengslum við íþróttir er fram líðar stundir.

Íþróttaferill hans hófst hins vegar í vélhjólasportinu motocross. „Svo byrjaði ég í crossfit samhliða því til að halda mér í góðu formi og það endaði með því að ég fór að æfa crossfit á fullu. Inni í því eru ólympískar lyftingar og þá heillaðist ég meira af því og ákvað að skipta alveg yfir í ólympískar lyftingar,“ segir Bjarki frá.

Bjarka þykir andinn góður í ólympískum lyftingum og ber Selfyssingurinn …
Bjarka þykir andinn góður í ólympískum lyftingum og ber Selfyssingurinn Eggerti Ólafssyni þjálfara sínum vel söguna. Ljósmynd/Aðsend

Honum þykir andinn góður í ólympískum lyftingum auk þess sem margir vinir hans æfi greinina en þjálfari Bjarka er Eggert Ólafsson sem hann ber vel söguna eins og fleiri sem æfa undir handleiðslu Eggerts.

Guðrún Helga Sigurðardóttir fékk einnig silfurverðlaun í +81 kg flokki 17 ára og yngri með 50 og 67 kg lyftur og Arey Rakel Guðnadóttir hlaut brons í fjölmennum -64 kg flokki kvenna 18 til 20 ára með 71 og 89 kg.

Þórbergur Ernir Hlynsson varð einnig Norðurlandameistari í youth-flokki svokölluðum, -89 kg þyngdarflokki, með 104 kg lyftu í snörun og 127 í jafnhendingu.

Þórbergur Ernir Hlynsson á fyrstasætispallinum.
Þórbergur Ernir Hlynsson á fyrstasætispallinum. Ljósmynd/Aðsend

Þá hlaut Tindur Eliasen brons í -81 kg flokki í youth og lyfti 101 kg í snörun.

Tindur á pallinum með brons í sínum flokki.
Tindur á pallinum með brons í sínum flokki. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is